144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eftir því sem maður hugsar meira út í þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í hv. atvinnuveganefnd misbýður manni sífellt meira. Eins og komið hefur fram var þetta mál ekki á dagskrá fundarins. Það var í raun tekið upp undir blálokin þegar fundi átti að vera lokið samkvæmt samkomulagi út af þingflokksfundum kl. 10. Klukkan var orðin 10 þegar málið var tekið upp og niðurstaðan kynnt af hálfu formanns atvinnuveganefndar, þ.e. að taka eigi átta kosti inn sem breytingartillögur nefndarinnar. Það eru ekki vinnubrögð sem þingið á að viðhafa og er okkur ekki til sóma. Þetta er stærra mál en svo að menn geti tekið það sisvona með annarri hendinni og hent því inn. Þetta er stórmál, hápólitísk mál sem menn verða að taka alvarlega. Ég hvet hæstv. forseta til að taka mið af því hversu stórt málið er og gefa því það pláss sem þarf í þinginu (Forseti hringir.) og gera hlé á þingfundi svo menn geti rætt saman í fullri alvöru.