144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gleður mig að heyra að boða eigi formenn þingflokka til fundar síðar í dag. Ég, eins og mjög margir aðrir þingmenn í stjórnarandstöðu, hef þungar áhyggjur af því hvernig að þessu er staðið og hvers konar fordæmisgildi það getur haft. Ég hvet forseta til að hafa í huga að þegar svona sprengju er kastað er eðlilegt að fólki verði órótt og mjög mikilvægt að málið verði sett í réttan farveg. Ég get ekki sætt mig við að þessi farvegur og vinnubrögðin í kringum þetta séu viðurkennd sem eðlilegar starfsvenjur og verði hefðahelgað hér á þingi.