144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sjálfu sér að forseti hefur tekið því vel að haldinn verði fundur með þingflokksformönnum síðar í dag, eins og ég skil orð hans, og að hann þurfi ráðrúm til að setja sig inn í efnisatriði máls. Ég skil það þannig að ekki standi til að láta algerlega óátalda þá stöðu sem upp er komin. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt. Ég vil þó biðja hæstv. forseta um að árétta þann skilning að til standi að halda fund með þingflokksformönnum hér síðar í dag, vegna þess að við verðum að átta okkur á því að dagskrá fundarins og framvinda hans hangir nokkuð á því að við höfum sameiginlegan skilning á því hver séu næstu skref í málinu, þ.e. að þingflokksformenn fái tíma með forseta til að fara yfir þetta fordæmalausa mál og það hvernig hv. atvinnuveganefnd eða meiri hlutinn hér hefur gjörsamlega vaðið yfir þingið og leggur fram mál sem vafi leikur á (Forseti hringir.) hvort geti talist þinglegt. Mér finnst rétt að sérfræðingar þingsins verði settir í startholurnar til að fara yfir hvort þetta geti talist þingleg tillaga.