144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:10]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Fyrst vill forseti segja að hann sagði áðan að hann vildi efna til fundar með þingflokksformönnum síðar, hann sagði ekki „síðar í dag“, vegna þess að forseti vill gefa sér þann tíma sem hann þarf til að undirbúa slíkan fund til að eitthvað komi út úr honum af viti.

Eins og hv. þingmenn vita er ætlunin að nú verði gert hlé á þessum fundi, síðan verði tekið til við atkvæðagreiðslu og að því búnu fari fram umræða um skýrslu hæstv. fjármálaráðherra um niðurstöðu EFTA-dómstólsins varðandi verðtryggð lán. Það var gert að ósk hv. formanna þingflokka á þingflokksformannafundi nú síðastliðinn mánudag.

Það er ætlun forseta að dagskráin haldi áfram en forseti mun reyna eftir því sem hægt er að koma á slíkum fundi eins fljótt og verða má og telur að engin ástæða sé til að ætla að á þeim tíma að minnsta kosti gerist afdrifaríkir hlutir sem ekki verði hægt að snúa til baka með varðandi það mál sem hv. þingmenn hafa viðrað áhyggjur sínar út af.