144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir að taka vel í það að funda með þingflokksformönnum um þetta mál. En ég varð jafnframt fyrir vonbrigðum þegar forseti segist ekki gera ráð fyrir að funda með þingflokksformönnum í dag. Ég vil segja hér, því fyrr sem sá fundur verður haldinn því fyrr fáum við vinnufrið í þinginu.

Ég hef áhyggjur af því og skynja þann þunga, að minnsta kosti í mínum þingflokki, að menn finna ekki ró í sínum beinum fyrr en einhver niðurstaða verður komin í málið og farið verður yfir þessi ófaglegu vinnubrögð, svo vægt sé til orða tekið, af hálfu forustu hv. atvinnuveganefndar og yfir höfuð hvort málið sé þingtækt og hvort það sé hreinlega löglegt að beita svona vinnubrögðum.