144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[12:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er orðið okkur ljóst sem hér erum að hæstv. forseti ætlar að halda áfram með þingfund eins og ekkert hafi í skorist þrátt fyrir að við höfum farið vandlega yfir það í morgun hversu alvarleg tíðindi séu á ferðinni með breytingum á þingsályktunartillögu umhverfis- og auðlindaráðherra.

Mig langar því að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi náð að fara eitthvað yfir málið í því hálftímahléi sem nú er að baki, hvort hann hafi náð að undirbúa sig að einhverju leyti fyrir fund með þingflokksformönnum og hvort hann hafi sett niður fyrir sér hvenær sá fundur gæti átt sér stað. Það þýðir ekkert að halda áfram með dagskrána eins og ekkert hafi í skorist þegar menn hafa komið fram með þessum hætti eins og við höfum reynt að vekja athygli á hér í morgun.

Það er óþægilegt fyrir okkur þingmenn að hafa komið því jafn skýrt á framfæri við hæstv. forseta og finnast síðan eins og ekki sé almennilega hlustað á okkur. Við erum að óska eftir fundi þar sem við fáum tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri. Ég get til dæmis ekki lagt fram gögn hér í ræðustól máli mínu til stuðnings, ég get það ekki. En það er hægt á fundum (Forseti hringir.) með þingflokksformönnum.