144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[12:57]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti er að verða dálítið hlessa á þessum umræðum. Forseti hefur lýst yfir að hann ætli sér að halda fund með þingflokksformönnum þegar hann hefur haft tök á því að fara yfir þessi mál efnislega þannig að sem mest komi út úr fundi með þingflokksformönnum.

Það liggur fyrir að nú á að fara fram atkvæðagreiðsla um fjáraukalög og forseti var að undirbúa þá atkvæðagreiðslu. Það liggja fyrir allmiklar óskir um sératkvæðagreiðslur um einstaka dagskrárliði þannig að atkvæðagreiðslan, sem forseti var að undirbúa í því stutta hléi sem hér var, er nokkuð flókin. Að því búnu var það hugmynd forseta að gert yrði hálftímahlé þar sem meðal annars ættu að fara fram fundir í tilteknum nefndum svo sem eins og forsætisnefnd, sem löngu hafði verið boðaður í hádegisverðarhléinu. Að því búnu væri hægt að hefja þá umræðu sem ósk kom um frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar að ætti sér stað um EFTA-úrskurðinn. Þetta var ætlun forseta. Á þeim tíma væri hægt af hálfu forseta að undirbúa fund með þingflokksformönnum. Þann fund telur forseti geta vel farið fram meðan á þingfundi stendur. Þetta eru áform forseta sem hann hefur reynt að gera grein fyrir en það hefur greinilega ekki komist til skila og þarf þess vegna að endurtaka. Það er það sem forseti er að gera.