144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur alls ekki komið skýrt fram hvenær þessi fundur á að vera. Ég tel, miðað við þá undiröldu sem er hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar og vonandi einhverjum þingmönnum stjórnarmeirihlutans, mjög brýnt að við hittumst, ræðum þessi mál og reynum að fá einhverjar lyktir í þau, því ég treysti mér ekki til þess að vera hér í vinnunni og láta eins og ekkert sé með þennan skugga vomandi yfir okkur. Ég vona að forseti hlusti á okkur sem köllum eftir því að fá einhverja niðurstöðu í þetta mál. Ef niðurstaðan er sú að það verði látið standa sem var ákveðið í morgun af hv. formanni atvinnuveganefndar eru þingstörfin öll í uppnámi. Það er bara þannig, forseti.