144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:02]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti getur ekki tímasett þennan fund og fyrir því er mjög einföld ástæða: Forseti hefur ekki hugmynd um það hversu lengi hv. þingmenn hafa hugsað sér að halda ræður um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í: Uss, uss.) Forseti vill hins vegar segja, eins og hann hefur margoft sagt á forsetastóli í morgun, að það er ætlun hans að undirbúa slíkan fund efnislega til þess að eitthvað geti komið út úr honum svo að gagni sé. Forseti þarf auðvitað að hafa tóm til þess. Hann hyggst hins vegar stjórna hér þingfundi meðan atkvæðagreiðsla fer fram og mun þess vegna ekki komast til þeirra verka fyrr en að því loknu. Það er ekki ætlun forseta að draga þetta von úr viti og er hann ekki þekktur fyrir að draga slíkar ákvarðanir von úr viti. Ef hv. þingmenn treysta ekki forseta í þeim efnum er það auðvitað vandamál forseta. En forseti hefur margoft lýst því yfir að hann ætlar að reyna að koma á fundi þingflokksformanna, vill gjarnan gera það meðan á þingfundi stendur og trúir því ekki að það verði þannig að koma eigi í veg fyrir að hér hefjist umræða um mál sem hv. þingmenn töluðu um, þingflokksformenn töluðu um fyrr í vikunni að væri mjög brýnt að þingið gæti rætt, sem er þessi EFTA-dómsúrskurður. Forseti vill greiða fyrir því að það geti átt sér stað sem allra fyrst að loknu því hléi sem verður þar sem meðal annars verður fundur hjá forsætisnefnd. Forseti treystir því að hv. þingmenn muni ekki setja fótinn fyrir það þannig að sú umræða geti farið fram, enda er ekki um að ræða til að mynda þingmál frá ríkisstjórn, og á þeim tíma geti forseti m.a. kynnt sér þau mál til hlítar þannig að gagn verði af þeim fundi sem vonandi fer fram á eftir.