144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ótrúlega dapurlegt hvernig fyrir þessu er komið í þinginu. Það er ósköp skiljanlegt að hæstv. forseti sé svekktur yfir því að menn séu að ræða þessi mál undir liðnum fundarstjórn forseta. En það er einfaldlega þannig að ekki munu gefast mikil tækifæri til að ræða þessa tillögu í þingsalnum, ef hún nær fram að ganga með þessum hætti, nema bara í síðari umræðu um þingsályktunartillögu í fimm mínútna ræðum, um ekkert smáræði, um að setja átta virkjunarkosti í nýtingarflokk, bara sisvona. Hæstv. forseti verður að virða það við stjórnarandstöðuna að fá að nýta tækifærið til að ræða þessi mál, þó ekki sé nema af veikum mætti, undir fundarstjórn forseta.

Auðvitað vonum við öll að snúið verði af þessari leið. Auðvitað áttu menn að vita og gátu séð og það á ekki að koma neinum á óvart að það mundi setja öll störf þingsins í uppnám þegar (Forseti hringir.) sú fyrirætlun lá fyrir að gera þessa breytingartillögu, eftir (Forseti hringir.) að fjallað hafði verið um málið í umhverfisnefnd og eftir að menn höfðu skilað af sér umsögn þar.