144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla í fullri vinsemd að beina því til forseta að hann beiti sér fyrir því á þeim tíma sem hann ætlar sér í að setja sig inn í málið að hvetja til þess að breytingartillagan verði tekin til baka eins og hún leggur sig.

Rammaáætlun er samkvæmt forsetaúrskurði hjá umhverfis- og auðlindaráðherra. Sá ráðherra fer með málaflokkinn og hefur lagt fram tillögu til þingsins um einn tiltekinn kost. Það er rétt að hann sjálfur flytji málið ef hann vill flytja það breytt. Hann geri það þá í nýrri tillögu frá byrjun og taki þá afstöðu til þess hvort hann hyggst hunsa verkefnisstjórn sem er að störfum í hans umboði. Það er enginn annar sem getur axlað það verkefni, bæði formsins og innihaldsins vegna, eins og sá ráðherra sem fer með umhverfis-, auðlindamál og rammaáætlun.