144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég met það við hæstv. forseta að hann telji sig þurfa tíma til að fara yfir málið og eigi þess vegna erfitt með að nefna ákveðna tímasetningu fyrir fund. Ég vil hins vegar leggja inn hjá hæstv. forseta eftirfarandi til undirbúnings þeim fundi:

Hér var lögð fram af hálfu hæstv. ráðherra tillaga um einn virkjunarkost, nú á að bæta átta við. Það er eðlisbreyting á tillögunni. Sem þingsályktunartillaga mun hún ekki sæta frekari meðferð þingsins nema bara seinni umræðu. Fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku var lagt minnisblað frá nefndasviði þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að okkur væri ekki mögulegt að bæta nýju efnisatriði við lagafrumvarp milli 1. og 2. umr. vegna þess að þá væri áskilnaður stjórnarskrárinnar um þrjár umræður ekki uppfylltur.

Ég vil þess vegna fyrst og fremst leggja það inn við hæstv. forseta að hér er ekki um boðlegan framgangsmáta að ræða. Ríkisstjórninni er í lófa lagið að leggja fram tillögu sem fær tvær umræður á Alþingi og sætir eðlilegri þinglegri meðferð. Við það munum við engar athugasemdir gera ef ríkisstjórnin (Forseti hringir.) kýs svo við að hafa, en við getum ekki sætt (Forseti hringir.) okkur við að þingræðisreglur séu (Forseti hringir.) sniðgengnar með þessum hætti.