144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér talar meiri hlutinn fyrir ábyrgri fjármálastjórn og mikið er talað um aga í ríkisfjármálum. Ég tek undir með þeim þingmanni sem talaði áðan að afkoman er ekki í sjálfu sér að batna neitt sérstaklega, eins og kemur reyndar fram í frumvarpinu sjálfu, undirliggjandi bati er í rauninni afar lítill. Þetta eru óreglulegar tekjur að mestu leyti, stór hluti frá Seðlabankanum. Og hvernig getur það talist vera agi í ríkisfjármálum að velja það að greiða niður einkaskuldir fólks en ekki ríkisskuldir. Þetta er mjög ólíkt Sjálfstæðisflokknum.

Svo því sé líka haldið til haga er ekki allt ófyrirséð í þessum fjáraukalögum frekar en fyrri daginn þannig að stjórnarmeirihlutinn getur kannski ekki alveg stært sig af því, og þarf að gæta jafnræðis þar, ég hef sagt það í ræðu áður. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ef meiningin er að halda áfram að vera með liði þar inni sem ekki eru ófyrirséðir þá þarf að gæta jafnræðis en það er ekki gert í þessu frumvarpi.