144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mikið af þeim tekjum sem eru að koma inn í þessu, sem þýðir að staða ríkissjóðs er betri, eru óreglulegar tekjur. Ef við spyrðum landsmenn í hvað þeir vildu nota þessa tugmilljarða, eða alla vega hluta af þeim, er ég nokkuð viss um að fyrsta forgangsatriðið væri að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins. Það er það sem væri hægt að gera í þessu frumvarpi.

Það sem væri líka hægt að gera í fjárlögum núna sem við stöndum frammi fyrir, af því að þetta nær ekki fram að ganga þar, er að hlusta á fjárþörfina sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir og forgangsraða skattfé almennings í heilbrigðismál.

Við píratar erum búin að láta gera skoðanakönnun, sem við munum upplýsa um bráðlega, um þessa liði í fjárlögum, um ýmsa málaflokka, um það hvernig landsmenn vilja fá þeim forgangsraðað. Það munum við birta á næstu dögum. Við verðum að fara að hlusta á þjóðina um hvar hún vill forgangsraða sínu skattfé.