144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þau fjáraukalög sem við ræðum í dag eru ólík öðrum fjáraukalögum áður því að þau eru miklu nær því að vera fjáraukalög, þ.e. lög sem taka á óvæntum útgjöldum ríkisins. Þetta er mjög mikilvægur þáttur. Þetta sýnir aukinn aga í ríkisfjármálum og ég held að sú mikla lækkun sem hefur orðið á verðbólgu undanfarið sé vegna þess að ríkið sé rekið með meiri aga. Fjáraukalögin eru dæmi um það og sveitarfélögin sömuleiðis vegna þess að ef ríki og sveitarfélög eru rekin með halla er það ekkert annað en peningaprentun sem kemur fram í aukinni verðbólgu.

Það hefur tekist með miklum aga í ríkisfjármálum að ná niður verðbólgunni þannig að menn eru nánast hættir að tala um hana.