144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér á að tekjufæra áætlaðar arðgreiðslur frá fjármálastofnunum á þessu ári og er að vísu um nokkuð lægri tölur að ræða en er að finna í sjálfu fjáraukalagafrumvarpinu, u.þ.b. 5 milljörðum kr. lægri. Það stafar væntanlega af því að nú er upplýst að niðurfærsla eigin fjár Seðlabanka Íslands eigi að tekjufærast upp á 21 milljarð kr. í fjárlögum þessa árs gegnum fjáraukalög. Sú tekjufærsla á engu að síður að byggja á ósamþykktri lagaheimild, frumvarp sem er nýkomið til efnahags- og viðskiptanefndar og er þar nú úti til umsagnar. Í öðru lagi á þessi tekjufærsla að byggjast á áætlun um áætlaðan hagnað Seðlabanka Íslands á árinu sem liggur ekki fyrir. Ég dreg stórlega í efa að þetta sé boðlegt, þetta sé nægjanlega traust. Hér tala menn mikið um aga og vönduð vinnubrögð og þeir segja oft mest af Ólafi konungi sem aldrei höfðu heyrt hann eða séð, eins og var sagt hérna í gamla daga. Er þetta agi (Forseti hringir.) og vönduð vinnubrögð?