144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Þessi liður er einmitt ágætur vitnisburður um agaleysið og óvönduðu vinnubrögðin. Hér eigum við að samþykkja að 40 milljarðar komi inn í ríkissjóð án þess að hafa samþykkt lög sem gera þá færslu að stórum hluta mögulega. Þetta er í raun alveg ótrúlega undarlegt.

Svo eru líka í þessum lið arðgreiðslur úr viðskiptabönkunum, aðallega úr Landsbankanum sem við í Bjartri framtíð höfum lengi bent á að væru á leið inn í ríkissjóð.

Við vildum að þeim pening yrði varið í að greiða niður skuldir ríkissjóðs og til að fara í arðbærar fjárfestingar í fjölbreyttu atvinnulífi og nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu grunnstoða samfélagsins. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin ætlar ekki að gera það og það munum við sjá í atkvæðagreiðslu í öðrum lið hér á eftir.