144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var áætlað að tekjur af veiðigjöldum yrðu 9.770 milljónir á þessu ári. Í fjáraukalagafrumvarpinu, þegar það kom fram, var lagt til að þessi tala yrði lækkuð um 1,5 milljarða. Nú á að gera betur. Í breytingartillögunni hér er lagt til að áætluð veiðigjöld á árinu verði lækkuð um 2.190 milljónir. Þá standa eftir nettó 7.580 milljónir. Það verða veiðigjöld í heild á árinu 2014, á sama tíma og rignir yfir okkur upplýsingum um betri afkomu, a.m.k. margra fyrirtækja, í sjávarútvegi en sennilega nokkru sinni fyrr.

Einmitt í morgun kynnti kvótahæsta fyrirtæki landsins, HB Grandi, uppgjör sitt á þriðja ársfjórðungi. Það er betra en nokkurn tíma fyrr hefur sést hjá fyrirtæki af því tagi. 20 milljónir evra, rúmir 3 milljarðar kr. í hagnað, hreinan hagnað, á þriðja ársfjórðungi einum saman. Þessi (Forseti hringir.) mikla lækkun veiðigjaldanna er því algjörlega á skjön við upplýsingar sem koma fram þessa sömu daga um að útgerðin, a.m.k. stórútgerðin, gæti lagt miklu meira af mörkum.