144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemdir við það hvernig tillögurnar komu í fjárlaganefnd, þar sem ekkert lá fyrir varðandi þær. Við höfum í rauninni ekki tekið neinar umræður um þessi mál og við gagnrýndum það mjög. Þetta er ákvörðun meiri hluta nefndarinnar. Það er svolítið sérkennilegt í ljósi þess sem ég sagði hér áðan að vandi þessara skóla er mikill. Þetta er ekki ófyrirséður kostnaður, kalið varð ekki núna korteri fyrir haustið, þetta er vandi sem Hólaskóli hefur staðið frammi fyrir síðastliðin tvö ár.

Við vitum hins vegar alveg hvernig málum er háttað varðandi Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og höfum rætt það mikið í þessum sal. Þarf að setja 15 milljónir inn til rektorsskipta? Ég spyr mig: Á að setja slíkt inn varðandi forstjóraskipti á Heilbrigðisstofnun Austurlands eða einhvers staðar annars staðar? Hefur það tíðkast almennt að það sé gert? Það held ég ekki.

Ég gagnrýni fyrst og fremst vinnubrögðin við að setja það inn. Það eru smáaurar í skólum sem (Forseti hringir.) þarfnast vissulega stefnu og ákvörðunartöku um framhald þeirra því að verið er að svelta þá þannig að þeir þurfa að hætta starfsemi.