144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari tillögu, hér er verið að setja svokallað gólf undir fjóra litla framhaldsskóla úti á landsbyggðinni, sem verður til þess að þeir geta lifað, ef við getum notað það orð hér aftur eins og ég gerði áðan. Þetta skiptir miklu máli til þess að þeir geti tekist á við þær breytingar sem hæstv. menntamálaráðherra hyggst innleiða. En það er líka mikilvægt að þetta fari inn í næsta ár, að tryggilega sé frá því gengið að skólarnir sem hér um ræðir, og fleiri skólar sem urðu fyrir gríðarlegum niðurskurði á miðju ári og svo aftur núna, verði starfhæfir og geti boðið upp á öflugt og fjölbreytt námsframboð. Svo var ekki þegar lagt var af stað með þær tillögur sem við vorum að fjalla um í fjáraukalagafrumvarpinu. Þessi breyting er því til góðs og ég vona að meiri hlutinn fylgi henni fast eftir og tryggi að þetta verði áfram inni.