144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessum viðbótum líka. Ég tel ástæðu til að tryggja að ekki sé gengið á hag fámennari skóla úti á landi hvað varðar framhaldsmenntun. Það er mikilvægt að fá þarna inn viðurkenningu á þeim samningum sem gerðir hafa verið við framhaldsskólakennara og eru að skila sér í breytingum á greiðslum fyrir einstaka nemendur.

Um leið vekur ugg sú stefna sem er boðuð í fjárlagafrumvarpinu. Ég treysti á að menn leiðrétti kúrsinn þar, en verið er að fækka þeim sem eiga aðgang að framhaldsskólum, það eru um 900–1.000 nemendaígildi. Það á eftir að fjármagna það hvernig þeir, sem þar er úthýst, geti átt kost á menntun. Ég ætla að vona að sá árangur sem kemur hér fram í fjáraukanum verði ekki eyðilagður með misvitrum ákvörðunum hæstv. menntamálaráðherra.