144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að tillögur frumvarpsins sjálfs, um 400 millj. kr. í viðbót til framhaldsskólanna, séu staðfesting á því að afgreiðslan á málum þeirra hér í fyrra, þegar fjárlög voru afgreidd, var óraunhæf. Þess gætti strax á öndverðu ári að það stefndi í stórvanda hjá framhaldsskólunum. Þegar það bættist svo við að hæstv. ráðherra ákvað það snemmsumars og tilkynnti litlu framhaldsskólunum að gólfið hefði verið tekið í burtu, sem sett var inn á síðasta kjörtímabili til að tryggja afkomu þeirra, tók við mjög alvarlegt ástand sem var óþægilegt fyrir alla sem við það bjuggu.

Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að nú koma inn fjármunir til að hægt sé með þessum hætti að tryggja sérstaklega stöðu minnstu skólanna þannig að þeir séu betur varðir fyrir breytingum í nemendafjölda og öðru slíku. Það liggur í eðli rekstrar þeirra að þeir hafa lítið borð fyrir báru til að takast á við slíkar sveiflur. Það ámælisverða er að þetta er ekki góð stjórnsýsla. Menn eru búnir að búa við nagandi óvissu alveg frá því í vor af þessum sökum. Það er auðvitað betra seint en aldrei að laga þetta og að sjálfsögðu hin efnislega niðurstaða sem skiptir mestu máli en mér finnst ástæða til að vekja athygli á því hvað mönnum er boðið upp á þegar svona er staðið að stjórnsýslunni.