144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var hárrétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hér áðan að upphaf þessa máls má rekja til þess að ákveðin var gjaldskrárhækkun vegna þessarar þjónustu. Þeirri ákvörðun síðustu ríkisstjórnar fylgdi ekki fjárframlag til að mæta skerðingunni sem yrði á þjónustunni. (Gripið fram í.) Það lá fyrir. Það gerðist því á síðasta ári, þegar þessi ákvörðun var tekin, að gripið var til aðgerða af hálfu þessarar ríkisstjórnar og bætt við 6 millj. kr. á því ári og síðan aftur á þessu ári.

Sama staða kom aftur upp og nú er brugðist við með því að bæta við í fjárauka. Þá er að okkar mati búið að mæta þessari hækkun þannig að nú á að vera hægt að veita sömu þjónustu eða sama þjónustumagn þrátt fyrir hækkun á gjaldskránni. En ég vil segja það hér, í ljósi þess að um viðkvæman málaflokk er að ræða, að þegar gjaldskrárhækkunin var ákveðin hefði að sjálfsögðu átt að ákveða um leið fjármagn til málaflokksins. Það hefði verið skynsamlegt og ekki valdið þeim vanda sem við höfum síðan staðið frammi fyrir.