144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg þennan 10 millj. kr. niðurskurð. Því var haldið fram í fjárlaganefnd að þetta væri vegna þess að ríkisstjórnin hefði einungis samþykkt 30 millj. kr. framlag til þessa. Í fjáraukalagafrumvarpinu er rakið hvaða fjárhæðir hafa verið settar til að endurnýja samninginn undanfarin ár og rætt um að varanlega lausn þurfi að finna á málinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í því ljósi ákvað ríkisstjórnin 17. desember 2013, eftir að tillögur vegna fjárlaga fyrir árið 2014 höfðu verið lagðar fyrir fjárlaganefnd til lokaafgreiðslu, að leitað yrði eftir fjárheimild í frumvarpi til fjáraukalaga 2014 svo að hægt væri að halda áfram þessum útsendingum um gervihnöttinn Telenor.“

Þetta er gert á grundvelli samnings milli RÚV og Fjarskiptasjóðs. Samningurinn hlýtur að hafa eitthvert ákveðið verðgildi. Er það svo að hann kosti ekki nema 30 milljónir, eða á RÚV að taka þetta á sig?