144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er ríkisstjórnin með sinn stjórnarmeirihluta í fjárlaganefnd enn einu sinni að ráðast að framkvæmdum Vegagerðarinnar. Vegagerðin óskaði á fjáraukalögum eftir um það bil 1.860 millj. kr. vegna vetrarþjónustu og halla á ferjulið. Afgreiðslan í fjármálaráðuneytinu er, eins og við sjáum hér: 1.150 millj. kr. eru færðar af nýframkvæmdum yfir í þjónustuna.

Þetta er nýtt og þetta er enn eitt dæmið um að stjórnarmeirihlutinn er að skera niður nýframkvæmdir þannig að þær verða nánast engar; eru litlar á þessu ári og verða enn minni á næsta ári ef fram fer sem horfir. Enn einu sinni er verið að ráðast á þá innviðastyrkingu sem er svo nauðsynleg víða úti um land og líka hér á höfuðborgarsvæðinu með þeim niðurskurði sem hér er boðaður.

Það er alveg ljóst að innanríkisráðuneytið hefur ekki verið mikið starfhæft síðasta ár og mér sýnist að enn einu sinni sé farið í sömu ferð. Þar sem engin viðspyrna er við að ná í pening í þennan málaflokk er gengið í það af fjármálaráðuneytinu og meiri hluta fjárlaganefndar að skera svo mikið niður eins og hér er. Ef fram fer sem horfir þá verða á þessu ári og því næsta minnstu framkvæmdir í sögunni.