144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hérna sjáum við kosningaloforð Framsóknarflokksins því þetta er ekki kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins sem ætlaði að fjármagna þetta með skattafslætti. Þessa peninga hafa menn verið að ná í gegnum skatt, en bankaskatturinn fyrir síðustu jól var settur á þrotabúin líka. Hann hefði átt að ná til þeirra frá 2010, samkvæmt markmiðum þeirra laga, þannig að þetta er vel gert.

Aftur á móti er ekki alveg ljóst hvort sá bankaskattur haldi, það er áhættuþáttur. Það er líka annar þáttur sem verður að horfa til og það er að þessi leiðrétting er gerð á grundvelli þess að það varð forsendubrestur, réttilega, í hruninu. Hvað ef sá forsendubrestur verður leiðréttur á næsta ári fyrir dómstólum út frá þeim forsendum sem EFTA-dómstóllinn gaf núna álit um? Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er sammála, Neytendastofa er sammála og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, er sammála um að þessi neytendalán hafi verið ólöglega útfærð. (Forseti hringir.) Hvað ef sá forsendubrestur hverfur? (Forseti hringir.) Hvað verður þá um þessa 16 milljarða? Þeir eru komnir út. (Forseti hringir.) Nú er ég búinn að heyra framsóknarmenn tala um að mögulega fái fólk ekki þá leiðréttingu að fullu (Forseti hringir.) … en ætla þeir þá að skipta sér af leiðréttingu dómstóla?(Forseti hringir.) Þetta er allt mjög illa hugsað.