144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:47]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Í meginatriðum svarar ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins spurningum héraðsdóms um tiltekin neytendalán og hvort verðtrygging þess og útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem miðast við 0% verðbólgu samrýmist tilskipun um neytendalán og óréttmæta samningsskilmála. Álit EFTA-dómstólsins virðist svara því þannig að það samrýmist ekki neytendalánatilskipuninni að miða við 0% verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, nema verðbólgustig á lántökudegi sé 0. EFTA-dómstóllinn vísar því til íslenskra dómstóla að meta réttaráhrifin í þeim tilfellum sem miðað var við 0% verðbólgu og ráðleggur um ýmis viðmið í því sambandi. Að lokum segir álitið að verðtrygging lána stangist ekki á við tilskipun um óréttmæta samningsskilmála í neytendasamningum. Málið er nú fyrir íslenskum dómstólum sem þurfa að svara hinum ýmsu álitamálum, m.a. varðandi framkvæmd verðtryggingarinnar, upplýsingagjöf til lántakenda og rétt þeirra sem neytenda.

Síðastliðinn mánudag fékk efnahags- og viðskiptanefnd á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins til að ræða álit EFTA-dómstólsins við nefndina. Þar kom meðal annars fram að álit EFTA fjallar um neytendalán sem fellur undir neytendalánatilskipun EES. Á miðju síðasta ári hafi verið alls um 66 milljarðar kr. af lánum sem gætu líkst því láni. Ef málið afmarkast við slík lán mundi efnahagur bankanna ráða við allar útkomur. Efnahagur bankanna er afar traustur, enda hefur hagnaður þeirra numið hátt í 300 milljörðum frá hruni. Ljóst er að ýmsum spurningum er ósvarað og það má sjá fyrir sér mjög ólíkar sviðsmyndir eftir því hvernig dómar falla. Eðlilegt er að ríkisstjórnin fari yfir ólíkar sviðsmyndir og viðbragðsáætlanir.

Álit EFTA-dómstólsins og öll þau álitamál sem stafa af verðtryggingu neytendalána er áminning um hve skynsamlegt það er að afnema verðtryggingu alfarið sem lánaform til neytenda. Ríkisstjórnin vinnur að áætlun um afnám verðtryggingar í skrefum. Á meðan halda bankarnir áfram að veita verðtryggð lán í nokkuð stórum stíl.

Ég var að athuga það rétt áðan að óverðtryggðir vextir íbúðalána eru núna rúmlega 7% af húsnæðislánum. Verðtryggðir vextir eru 3,65% á sama tíma. Þá veltir maður því fyrir sér hvort ekki væri hjálplegast við gerð áætlunar að taka þá væntingu um verðbólgu sem felst í þessum mun. Munurinn á þessu tvennu hlýtur að vera vænt verðbólga, ríflega 3%, jafnvel þó að í dag sé 0% verðbólga, eða er hún 0,5% eða -0,5%? Hún er mjög lág í dag, ég held að hún sé innan við 1%. Bankarnir fara samt fram á 3% mun. Ef ég væri lántakandi að reyna að velja á milli þessara tveggja lánaforma, óverðtryggðs láns og verðtryggðs láns, mundi það hjálpa mér að fá greiðsluáætlun með 1% verðbólgu þegar munurinn á lánaformunum tveimur (Gripið fram í.)er 3% og í því felast væntingar um verðbólgu? (Gripið fram í.) Akkúrat. Þannig að þegar ég tek þessa ákvörðun er mikilvægt að fá hjálplegar upplýsingar. Því miður er að mínu mati ekki alveg öruggt að það fyrirkomulag sem leitt var í lög hér 2013 sé endilega lokalendingin í því máli. Þetta er svo flókið lánaform, verðtryggingin, að það er í rauninni ekki hægt að bjóða neytendum upp á það. Ég, eins og margir aðrir í mínum flokki, er á því að það þurfi að „afvikla“ þessa tegund lánaforma sem fyrst. Þessi dómur er áminning um það.

Svo maður rifji upp önnur vandamál sem fylgja þessari verðtryggingu er hún sögð leiða til hærra vaxtastigs sem bitnar á lífskjörum í landinu. Það er vegna þess að þegar verðtryggð lán eru orðin mjög útbreidd í samfélaginu virka stýrivextir ekki fyrr en þeir eru komnir í hæstu hæðir. Það í sjálfu sér bitnar á fólki, jafnvel þótt verið sé að bæta vöxtunum við höfuðstólinn er eign fólks að minnka.

Verðtryggð jafngreiðslulán hækka fyrstu ár lánstímans. Þau lækka ekki, þau hækka af því fólk er að fá lánað fyrir vöxtunum. Svo eru vextirnir verðbættir, eins og hér hefur verið nefnt áður. Verðtryggingin er líka talin hvetja til verðbólgu. Bankar sem eiga verðtryggð lán og fjármagna sig með óverðtryggðum innstæðum hagnast um hátt í 2 milljarða á hverju einu prósenti í verðbólgu. Það er kominn hvati til þess að bankar auki verðbólguna með útlánaþenslu.

Síðan er það stóra spurningin hvort eðlilegt sé að neytendur bjóði lánveitendum tryggingu gegn efnahagsáföllum og gengissveiflum. Í öllum öðrum löndum er það þannig að ef gengi gjaldmiðils lækkar þá lækkar líka virði lánanna, en hérna heldur verðmæti og kaupmáttur lánanna sér eins og ekkert hafi gerst, jafnvel þótt laun hafi lækkað og fasteignir hafi lækkað að raunvirði. Það leiðir til þess að skuldsetning verður of mikil og eykst snarlega þegar kreppa kemur og gerir kreppuna langvinnari. Það er í rauninni mjög hættulegt að vera með svona útbreidda verðtryggingu lána í heimilunum.

Það má líka færa rök fyrir því að ef við höfum séð ástæðu til þess að banna gengistryggð lán ættu alveg sömu sjónarmið að gilda um það að banna verðtryggð lán, vegna þess að það er engin með verðtryggð laun, það á enginn verðtryggðar eignir. Ef ástæðan fyrir því að við eigum ekki að taka lán með gengisviðmiðum er sú að tekjur hins almenna neytanda eru ekki í erlendum myntum og því ógætilegt að taka gengistryggt lán ætti með sömu rökum að banna verðtryggð lán.

Svo er það þetta með verðmælinguna. 1% breyting á vísitölunni sveiflar 20 milljörðum milli skuldara og lánveitanda. Gæðabjagi, mistök, hvað sem er, allt getur þetta ráðið úrslitum um hag heimilanna og lánveitenda.

Virðulegi forseti. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins varpar í raun aðeins ljósi á það hversu mikið ólíkindatól verðtryggingin er og alla þá óvissu sem verðtrygging hefur skapað íslenskum neytendum og samfélaginu öllu. Eins og við höfum nú kynnst eru verðtryggð lán mjög flókinn samningur sem neytendur átta sig illa á og þetta mál vekur fleiri spurningar en það svarar. Ég held að þetta ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sé einfaldlega ein staðfestingin í viðbót á því að áform ríkisstjórnarflokkanna um að afnema verðtryggingu á neytendalánum sé bæði skynsamleg og nauðsynleg.