144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:10]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er rætt um er dómur og það er kannski dálítið á skjön við aðskilnað löggjafarvalds og dómsvalds að fjallað skuli um dóma með þessum hætti á hinu háa Alþingi. En fallist hefur verið á þessa umræðu og má kannski segja að það sé rétt og eðlilegt.

Til að byrja með ætla ég að vísa til bréfs sem ég hef undir höndum frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem fjallað er um verðtryggingu. Þar er vísað til þess að verðtrygging sé ósköp einfaldlega eitt form af breytilegum vöxtum sem er viðtekið um allan heim. Munurinn á verðtryggingu og breytilegum vöxtum er sá að verðbreyting er mæld í ákveðinni punktstöðu á móti því að breytilegir vextir eru annaðhvort ákveðnir með huglægum hætti af lánveitanda einhliða eða með einhverri tilvísun í svokallaðan markað ef hann er til staðar, þannig að þetta form breytilegra vaxta fellur fyllilega undir það að geta talist eðlileg vaxtataka í fjárskuldbindingum.

Í þessu máli kemur upp deila varðandi innleiðingu á tilskipun þar sem gert er ráð fyrir því að hin eina rétta upplýsingagjöf sé að varpa fortíðinni yfir á framtíðina, þ.e. að taka ársverðbólgu aftur í tímann og varpa henni langt inn í framtíðina.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í sinni ræðu að hann teldi aldeilis hreint fráleitt að miða við 0% verðbólgu. Ég er honum algerlega ósammála vegna þess að ég tel að með 0% verðbólgu sé einmitt verið að sýna hina raunverulegu stöðu. Hin raunverulega staða núvirðis lánsins er það sem tekið er á lánstíma. Í áliti dómstólsins eða í dómsorðum er hvergi fjallað um núvirði, en málið er það að það er ýmislegt fleira sem breytist en verðlag, það eru til dæmis laun. Ef við erum með 1% verðbólgu aftur í tímann eins og hún mælist í dag, ársverðbólga 1%, þá mætti kannski spyrja: Er ekki rétt að hafa 2,29% frádráttarlið þar til viðbótar til þess að sýna hina eðlilegu greiðslubyrði, til þess að sýna hina raunverulegu stöðu?

Með þessu móti, með 0% verðbólgu, er verið að sýna hina raunverulegu stöðu og mér finnst stundum skorta svolítið á — það er sagt að menn sjái ekki eðli verðbólgunnar, menn skilja hana þaðan af síður. En með svokölluðum óverðtryggðum lánum, þar sem nafnvextir eru einungis nefndir og hvergi fjallað um raunvexti, er í raun verið, í verðbólgulandi eins og hér, að búa til svo þunga greiðslubyrði að það ræður ekki nokkur maður við hana og sennilega, miðað við afturreikning, þá er það neytandanum ekki til hagsbóta.

Ég leyfi mér að segja það, og varpaði þeirri skoðun minni fram í fyrradag, á þriðjudag, að hið eðlilega væri að miða við 0%. Það vill nú svo til að ég hef fengið ýmis álit málsmetandi manna sem hafa enga hagsmuni heldur hafa einungis skynsemina að leiðarljósi og telja að 0% upplýsingagjöf sé hin eina rétta og til verndar neytandanum, allt annað er í raun ágiskun. Neytandinn getur hins vegar búið sér til ýmsar forsendur.

Í þessu máli liggur fyrir álit dómstólsins sem segir, með leyfi forseta:

„Að því gefnu að þeirri vernd sem neytendalánatilskipunin veitir samkvæmt túlkun dómstólsins sé ekki stefnt í hættu, er það landsdómstólsins að meta, að teknu tilliti til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum er hægt að beita af því tilefni.“

Ég er ósammála dómnum um að þetta sé röng upplýsingagjöf. Þetta er upplýsingagjöf sem miðast við 0%. Og það er, eins og fram kemur í álitinu sem hér liggur fyrir, landsdóms að úrskurða og það er landsdóms að úrskurða hvort lántaki fellur undir það, sem hér stendur einhvers staðar, að vera ágætlega upplýstur, (Forseti hringir.) athugull og forsjáll neytandi.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.