144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að fagna því að enn eina ferðina komi aðhald í neytendavernd frá Evrópusambandinu. Þangað hafa neytendur leitað til þess að verja sig gagnvart íslenskum stjórnvöldum, en eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag er hér um leiðbeinandi álit að ræða og ekki endanlega niðurstöðu. Hún mun ekki liggja fyrir fyrr en eftir allnokkurn tíma og óvíst er hversu mörg mál þurfa að fara fyrir dómstóla til að við sjáum umfang þessa máls.

Þegar verðtryggingin var innleidd í íslensk lög á sínum tíma var það til þess að tryggja aðgengi fólks að lánsfé því að verðbólga át upp sparifé fólks og þeir sem þurftu að fá fé að láni áttu erfitt með það því að fáir voru tilbúnir að veita lán með neikvæðum vöxtum. Þetta fyrirkomulag sem er vægast sagt mjög óheppilegt hefur verið hér við lýði áratugum saman og mjög erfitt hefur reynst að snúa ofan af því.

Það hefur verið staðfest að verðtryggingin sé lögmæt, en fyrir okkur alþingismenn stendur eftir spurningin sem dómstólar ætla sér að skera úr um. Ég held að við getum öll verið sammála um að skilningur fólks á verðtryggingunni sé takmarkaður. Henni hefur verið líkt við afleiðusamninga. Það þarf þekkingu á fjármálum til að skilja eðli hennar. Við þurfum líka að muna að meðvitund og þekking fólks hefur aukist talsvert eftir hrun. Fyrir hrun var jafnframt meira traust á þeim stofnunum og stjórnvöldum sem áttu að hafa eftirlit með fjármálastofnununum, að það væri farið eftir lögum og að upplýsingagjöf væri nægjanleg sem hún var svo augljóslega ekki.

Ég vil nota tækifærið líka og lýsa áhyggjum af því að bæði Lánasjóður íslenskra námsmanna og Íbúðalánasjóður segja nokkuð digurbarkalega að þetta muni ekki hafa áhrif á þau lán sem þar hafa verið veitt. Ég dreg það í efa. Ég held að þau lán eigi að meðhöndlast eins og önnur lán og vona að niðurstöður leiði ekki enn eina ferðina til ójafnræðis milli lánategunda hjá fólki.

Fyrir kosningar voru gefin mikil loforð um afnám verðtryggingarinnar. Það er ekki í okkar höndum á Alþingi heldur dómstóla að vinna í samræmi við þetta leiðbeinandi álit, en við á Alþingi þurfum að takast á við veruleika verðtryggingarinnar og velta fyrir okkur hvernig við komumst út úr þessu.

Ég tel einboðið að forsætisráðherra flytji okkur nú skýrslu um afnám verðtryggingar. Þetta tuggðu frambjóðendur flokksins upp við okkur fyrir kosningar og síðan hefur bara ekkert bólað á fyrirheitum. Það kom skýrsla (Gripið fram í.) sem eiginlega taldi að ekki væri heppilegt að uppfylla kosningaloforðið, en ég held að það sé tímabært að forsætisráðherra flytji okkur skýrslu um hvernig hann hyggist afnema verðtryggingu.

Þá tel ég líka að nýr innanríkisráðherra, sem vonandi verður skipaður sem fyrst, hafi það eitt af sínum fyrstu verkum að vinna úr (Forseti hringir.) tillögum til að efla neytendavernd á fjármálamarkaði sem verður niðurstaðan úr þingsályktun um neytendavernd sem ég flutti á síðasta kjörtímabili og var samþykkt. Í skýrslunni eru fjölmargar (Forseti hringir.) tillögur um neytendavernd. Þetta er á okkar forræði og ég held við ættum að einhenda okkur í verkið.