144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu. Hæstv. fjármálaráðherra hóf umræðuna á munnlegri skýrslu um málið.

Það er auðvitað vandasamt að ræða hér mál sem er enn fyrir dómstólum og ýmislegt í álitinu sem við ræðum nú um eiga dómstólar eftir að meta og taka afstöðu til, álitið er ekki bindandi sem slíkt og endanleg úrlausn er hjá íslenskum dómstólum.

Það er rétt að árétta, þó að það hafi komið fram hér í umræðu hv. þingmanna, að álitið er fengið að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur í máli einstaklings, neytanda, gegn fjármálafyrirtæki og snýr að túlkun á tilskipunum og samræmdum lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán og óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Tilgangur málarekstursins er sá að fá skorið úr um lögmæti og framkvæmd verðtryggingar. Það kemur fram í umfjöllun álitsins um málavöxtu og meðferð málsins að Héraðsdómur Reykjavíkur teldi ekki liggja ljóst fyrir hvernig túlka beri annars vegar tilskipun um neytendalán og hins vegar tilskipun um óréttmæta samningsskilmála; áhrif þeirra og hvort heimilt sé að líta fram hjá verðbólgustiginu við undirritun samningsins og miða bara við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði lántaka.

Spurningin sem í þessu ráðgefandi áliti fékkst svar við sneri að því hvort það samrýmdist ákvæðum tilskipunar um neytendalán að við útreikninginn á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka í formi greiðsluáætlunar, sé miðað við 0% verðbólgu. Svar dómstólsins, eins og glögglega hefur komið fram, var á þá leið að það samrýmdist ekki tilskipuninni að miða við 0% verðbólgu við slíka upplýsingagjöf til lántakans ef verðbólgustigið á lántökudegi er ekki 0%. Það er svo eftirlátið dómstólum okkar að meta hvaða áhrif slík upplýsingagjöf hefur, leggja mat á úrræðin sem mögulega má beita og að því gefnu að verndinni sem tilskipuninni er ætlað að veita sé ekki stefnt í hættu.

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að spyrja sig að því hvaða þýðingu það mun hafa fyrir neytendur og lántaka ef innlendir dómstólar staðfesta að einhverju marki niðurstöður EFTA-dómstólsins og hvaða þýðingu það mun hafa fyrir neytendur og lántaka. Að sjálfsögðu má segja að það yrði til bóta ef þetta yrði til að skýra betur réttarstöðu íslenskra neytenda. Hvaða þýðingu mun þetta hafa fyrir fjármálastofnanir og hagkerfið í heild?

Það hefur komið fram í umfjöllun ýmissa aðila að eiginfjárhlutfall viðskiptabankanna er hátt og yfir viðmiðum og samkvæmt upplýsingum af þeirra hálfu telja þeir sig þola þá niðurstöðu ef niðurstaða dómstóla færi á svipaða leið og kemur fram í álitinu.

Það hefur verið rætt hér, af hálfu nokkurra hv. þingmanna, að skuldaleiðréttingin væri í einhverju uppnámi. Ég get ekki metið það svo af áliti lögfræðinga að það ætti að vera. Neytendur eiga því ekki að þurfa að hafa áhyggjur af leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána og væntanlega mundi Hæstiréttur taka mið af því í væntanlegri niðurstöðu og endurútreikningum.

Virðulegi forseti. Í öllu falli hafa innlendir dómstólar álit EFTA-dómstólsins að styðjast við, úrlausn þessa ágreinings sem snýr meðal annars að því hvort eðlilegt geti talist að upplýsa neytandann með þeim hætti að miða við 0% verðbólgu við undirritun samnings þegar lán er veitt.

Þess ber að geta að dómstóllinn mat verðtrygginguna ekki ólögmæta eða að hún gengi gegn tilskipuninni, en eftir stendur sú spurning — þá meina ég óháð niðurstöðunni og væntanlegri túlkun dómstólanna; frekar af pólitískum toga og með tilliti til þessa lánafyrirkomulags, þessa verðtryggða kerfis — hvort það sé æskilegt ástand að halda í slíkt fyrirkomulag sem veldur þvílíkri óvissu. Það er erfitt og nánast ómögulegt að ráða í verðlagsþróun til langs tíma og binda til dæmis húsnæðislán, sem sett voru undir neytendalánalögin 2001, við neysluverðsvísitölu sem er jú mælikvarði á verðlagsbreytingar.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason vitnaði til þess að verðtryggingin væri eitt form breytilegra vaxta. En þeir virka þannig í þessu verðtryggða kerfi, eins og kom mjög vel fram í útskýringum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, að þeim er skutlað aftan við höfuðstólinn og byrja að tikka inn á vöxtum (VilB: Og verða þá vaxtavextir. ) — og verða þá vaxtavextir, kallar þingmaðurinn og áréttar. Við verðum að gera það upp við okkur hvort okkur finnist það lánafyrirkomulag æskilegt.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom hér inn á að það hefði verið boðað í aðdraganda kosninga að afnema ætti þetta fyrirkomulag, þ.e. verðtryggingu á húsnæðislánum. Það er í ferli og hefur verið frá því þingsályktunartillaga var lögð fram, var einn 10 liða í þingsályktunartillögu sem var lögð fram. Niðurstaðna er að vænta frá verkefnahópi úr fjármálaráðuneytinu.

Ég á því von á því að til tíðinda muni draga. Ég hef fulla trú á því að við náum að koma okkur út úr þessu kerfi. Því að það er erfitt og nánast ómögulegt að ráða í verðlagsþróun til langs tíma.

Þá ætla ég að tala um þetta núvirði sem hefur komið fram hér í umræðunni og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason nefndi. Núvirði eitt og sér segir okkur hvert er gildi samnings á þeim tímapunkti þegar við skrifum undir hann. En ætli lánið fari nokkuð, þannig að framtíðarvirðið hlýtur að skipta (Forseti hringir.) öllu máli í greiðsluáætlun sem ómögulegt er að segja til um.