144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið vel til fundið að efna til umræðu á þingi um áhrif þessa ráðgefandi álits. Eins og ég nefndi hér í upphafi fannst mér tilefni til þess vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram í kjölfar þess að álitið kom út að greina frá því að stjórnvöld hafa fylgst með þessu máli og sambærilegum málum. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og stöðugleikaráðið hafa gert það sem hægt er til að meta möguleg áhrif af réttarágreiningi sem snertir lánaskilmála sem eru almennt í notkun í fjármálakerfinu.

Eins og fram hefur komið hér í dag munum við þurfa að bíða úrlausnar íslenskra dómstóla á því hvort það muni hafa einhver raunveruleg áhrif að sú framkvæmd hafi tíðkast hér á landi að miða við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun. Það er skýrt í þessu ráðgefandi áliti að sú framkvæmd samræmist ekki tilskipuninni, en það þýðir ekki að það muni hafa jafn afdrifarík áhrif og sumir hafa gefið sér að því er virðist í umræðu undanfarinna daga. Það verður þó allt að koma í ljós. Fyrir öllu er og mestu skiptir að neytendur geti látið reyna á rétt sinn og að þeir njóti þeirrar réttarverndar sem lög bjóða.

Hér hefur verið komið nokkuð inn á skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar og möguleg áhrif eða afdrif þessara mála á þær. Eitt er alveg víst að aðgerðirnar eru undir engum kringumstæðum hugsaðar þannig að ætlunin hafi verið að tryggja mönnum tvöfaldan rétt eða að menn fái einhvers konar leiðréttingu eða bætur frá hinu opinbera þrátt fyrir að hafa ekki þurft að taka á sig verðbólgu á þeim árum sem ætlað er að leiðrétta fyrir. Það er sjálfsagt að taka þeim ábendingum sem hér hafa komið fram alvarlega og taka það með í reikninginn í lok þingstarfanna með hvaða hætti þarf að taka þau álitamál sem hefur verið velt upp í umræðunni. Aðalatriðið er að við fáum ekki endanlegan botn í þessi mál fyrr en íslenskir dómstólar hafa kveðið upp úr um álitamálin.

Þess utan vil ég bæta því við að ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé of langt gengið að segja neytendur njóta mun betri réttar með því að telja verðbólgu síðustu 12 mánaða til að reikna upp greiðsluáætlun einhverja áratugi fram í tímann, að segja að neytandi sem fær útreikninga einhverja áratugi fram í tímann sé í miklu betri stöðu en sá sem fær verðbólgu síðustu þriggja mánaða eða bara 0% verðbólgu til grundvallar greiðsluáætlun sinni finnst mér mjög langt gengið. (JÞÓ: Þú skilur þá betur verðið á láninu.) Sagt er að viðkomandi skilji þá betur verðið á láninu. Hann verður þá líka að taka með í reikninginn að á Íslandi hafa laun að jafnaði hækkað meira (Forseti hringir.) en vísitala neysluverðs. Launavísitalan hefur hækkað þar langt umfram. Það (Forseti hringir.) sem skiptir fyrst og fremst máli fyrir viðkomandi er að gera sér grein (Forseti hringir.) fyrir því hvert núvirðið eða raunvirði greiðslunnar er vegna þess að fleiri krónur í framtíðinni (Forseti hringir.) þýða ekki fleiri raunkrónur. Verðbólga (Forseti hringir.) gerir ekki annað en draga úr virði krónunnar. (Forseti hringir.) Þannig geta 150 kr. í framtíðinni verið nákvæmlega jafn mikils (Forseti hringir.) virði og 100 kr. eru í dag. (Gripið fram í: Þetta er vaxtavaxta…)