144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[16:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið. Með lögum nr. 86/2013, sem komu til framkvæmda frá 1. júlí 2013, voru þær skerðingar sem tóku gildi í júlí 2009 dregnar til baka. Einnig voru gerðar margs konar breytingar á almannatryggingalögum með lögum nr. 8/2014, sem öðluðust gildi 1. febrúar síðastliðinn. Má þar nefna réttindi og skyldur borgaranna í samskiptum við Tryggingastofnun, t.d. með aukinni leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar og ákvæði um skyldu til að veita upplýsingar sem varða ákvarðanir um rétt til greiðslna, ekki síst auknar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Þannig var komið til móts við ábendingar sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá febrúar 2013, um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum.

Um þessar mundir er unnið að tillögum um breytingar sem varða efnisreglur laganna, bótaflokkana sjálfa, og er fjallað áfram um frekari endurskoðun almannatryggingalaga. Í nefnd sem ég skipaði í nóvember 2013 og hv. þm. Pétur H. Blöndal stýrir og skipuð er fulltrúum stjórnmálaflokka, aðilum vinnumarkaðarins og helstu hagsmunaaðilum, hefur fyrst og fremst verið fjallað um greiðslur til aldraðra, sveigjanleg starfslok og eftirlaunaaldur, sem og það sem snýr að öryrkjum eins og starfsgetumat sem komi í stað örorkumats. Sú vinna gengur vel en hefur tekið talsverðan tíma enda verkefnið stórt og snýr að grundvallarþáttum almannatrygginga og vilja margir hópar og hagsmunaaðilar koma að vinnunni. Von er á niðurstöðu nefndarinnar í byrjun næsta árs, síðan verður unnið úr þeim í framhaldinu og vonast ég til að geta lagt fram fleiri frumvörp í þessum málaflokki á næstu missirum. Á meðan þetta nefndarstarf stendur yfir tel ég mikilvægt að halda áfram vinnu við heildarendurskoðun almannatryggingalaganna.

Í frumvarpinu legg ég aðallega til breytingar á ýmsum ákvæðum sem einkum snúa að almennum ákvæðum laganna, formi þeirra og stjórnsýslu. Er það meðal annars gert til að koma til móts við athugasemdir frá umboðsmanni Alþingis sem bent hefur á að vegna misjafnrar heilsufarslegrar og félagslegrar stöðu lífeyrisþega sé sérstaklega brýnt að ákvæði laga um réttindi þeirra séu skýr. Hefur margoft verið kallað eftir meiri skýrleika laganna og bent á að þau þyki of flókin eftir margháttaðar breytingar á undanförnum árum. Hér er því áhersla lögð á aukinn skýrleika laganna, bæði í framsetningu og uppsetningu, og þannig stuðlað að auknu gagnsæi. Auk þess eru lagfærðir ýmsir hnökrar sem komið hafa í ljós í gildandi lögum og endurskoðuð ýmis ákvæði sem komin eru til ára sinna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum sem varða Tryggingastofnun ríkisins, hlutverk hennar, stjórn og forstjóra. Lagðar eru til breytingar varðandi ákvörðunarvald um staðsetningu stofnunarinnar og hvernig ákvörðun um staðsetningu þjónustustöðva hennar skuli tekin. Í þessu sambandi má geta um vinnu sem hafin er í velferðarráðuneytinu um að leita leiða til að samþætta ýmsa þætti í starfsemi Tryggingastofnunar og Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu og sameiningu þjónustustöðva þessara stofnana á landsbyggðinni. Ég tel að slíkar breytingar muni leiða til aukinnar hagræðingar í rekstri stofnananna til lengri tíma litið en fyrst og fremst munu þær efla þjónustu við þá einstaklinga sem þurfa að leita til stofnananna.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um markmið laganna enda mikilvægt að markmið laga um almannatryggingar sé skýrt. Þá er orðskýringum bætt við, fjallað um gildissvið og hverjir njóti tryggingaverndar samkvæmt lögunum. Enn fremur eru lagðar til ýmsar breytingar er lúta að greiðslum bóta, réttarstöðu sambýlisfólks, greiðslum til fanga og til þriðja aðila og reglum um ósamrýmanleg réttindi og skörun bóta. Þá er gert ráð fyrir nýju ákvæði til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir í samspili örorkubóta og almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju og lagt er til að vinnusamningar öryrkja færist frá Tryggingastofnun til Vinnumálastofnunar.

Ég vil vekja athygli á því að samhliða þessu frumvarpi er lagt fram af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að IV. kafli almannatryggingalaga um slysatryggingar verði færður í sérlög. Má í því sambandi geta þess að árið 2008 voru sett sérstök lög um sjúkratryggingar og sá kafli almannatryggingalaganna sem fjallaði um sjúkratryggingar var felldur brott. Verði frumvarp þetta að lögum mun meginefni almannatryggingalaga því framvegis vera um lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum. Þessar breytingar eru því mikilvægar í því skyni að auka skýrleika í því lagaumhverfi er snýr að almannatryggingum og auðvelda alla frekari vinnu við undirbúning breytinga á efnisákvæðum laganna, svo sem breytingar sem varða elli- og örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Virðulegi forseti. Ég mun nú skýra nánar efnislega frá helstu breytingum sem felast í frumvarpinu.

Í gildandi lögum um almannatryggingar er ekki að finna sérstakt ákvæði um markmið laganna en ég tel afar mikilvægt að úr því verði bætt til samræmis við það sem nú tíðkast í lagasetningu. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er því lagt til að sett verði ákvæði um markmið laganna þar sem tekið er mið af 76. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður réttur í lögum til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þótt formlegt markmiðsákvæði hafi ekki verið í lögunum til þessa verður að hafa í huga að tilgangur og markmið laganna og lagabreytinga á hverjum tíma koma fram í athugasemdum með frumvörpum auk þess sem dómar hafa gengið þar sem tilgangur og markmið hafa verið skýrð.

Hvað varðar inntak ákvæðisins skal haft í huga að löggjafinn hefur komið á ákveðnu kerfi hér á landi í þeim tilgangi að tryggja þeim sem þess þurfa rétt til aðstoðar þegar svo stendur á sem um getur í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Myndar sú lagaumgjörð að stærstum hluta íslenska velferðarkerfið þegar elli og örorka kemur til. Aðstoðin sem um ræðir getur verið bæði í formi aðstoðar, hjálpar og peninga. Með lögum hefur þannig verið komið á lífeyristryggingakerfi sem byggist aðallega á tveimur stoðum. Annars vegar er um að ræða lífeyristryggingar almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sem gilda um alla sem búsettir eru hér á landi, og hins vegar lífeyristryggingar samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem taka til allra á vinnumarkaði.

Í velferðarkerfinu er að finna ýmsar reglur um aðstoð ríkis og sveitarfélaga við þessar aðstæður aðrar en þær sem um getur í lögum um almannatryggingar. Má nefna lög um félagslega aðstoð, lög um sjúkratryggingar, lög um málefni aldraðra, lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Er áfram gert ráð fyrir þeirri grundvallarreglu sem fram kemur bæði í stjórnarskrá og framangreindum lögum að hverjum einstaklingi sé skylt að framfleyta sér sjálfur, en hlutverk almannatrygginga sé fyrst og fremst að veita þeim sem lögin taka til og á þurfa að halda bætur og aðstoð vegna tekjutaps eða tekjulækkunar og vegna sérstakra útgjalda sem rekja má til elli eða örorku. Með bótum og þeirri þjónustuaðstoð sem kveðið er á um í öðrum lögum og ég hef nefnt skal þannig stuðla að því að þeir sem lögin taka til geti framfleytt sér sjálfir og lifað sjálfstæðu lífi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir orðskýringum, en í almannatryggingalögum er lítið um að hugtök séu skilgreind eins og oft er í stærri lagabálkum. Ég tel fulla þörf á slíkum orðskýringum en ætla ekki að fjalla hér nánar um þær og vísa til athugasemda með þessu ákvæði frumvarpsins. Ég hvet nefndina til að fara mjög vel yfir orðskýringarnar því það er eitt af því sem maður hefur lært eftir að hafa farið í gegnum svona stóra lagabálka, þar sem hefur verið bætt við orðskýringum, hvað hugtakanotkun getur skipt miklu máli þegar kemur að framkvæmd laganna.

Ákvæði frumvarpsins sem fjalla um gildissvið, tryggingavernd og dánarbú byggjast að mestu á gildandi lögum en eru nú sett fram með skýrari hætti. Er rétt að vekja athygli á að lagt er til að fimm ára hámarkstími framlengingar á tryggingavernd þrátt fyrir störf og dvöl erlendis verði lögfestur, en í dag er kveðið á um þann hámarkstíma í reglugerð. Einnig er vert að nefna sérstaklega að lagt er til að tekið verði skýrt fram að lögin gildi einnig um dánarbú eftir því sem við á.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýjum kafla um stjórnsýslu sem varðar Tryggingastofnun ríkisins, stjórnun hennar og skipulag, líkt og ég nefndi áðan. Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði fram að ráðherra fari með yfirstjórn lífeyristrygginga en einnig að hann fari með yfirstjórn annarra málefna sem fjallað er um í lögunum, t.d. milligöngu meðlagsgreiðslna. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra marki stefnu innan ramma laganna, ekki síst til að undirstrika heimildir ráðherra til stefnumótunar, stjórnunar og skipulagningar almenna lífeyristryggingakerfisins. Einnig er lagt til að kveðið verði ítarlega á um hlutverk Tryggingastofnunar og helstu verkefni stofnunarinnar tilgreind í lögunum með áherslu á meginhlutverk hennar, sem er framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga. Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna sem kveður á um að aðalskrifstofa Tryggingastofnunar skuli vera í Reykjavík verði fellt brott, en ráðherra ákveði staðsetningu stofnunarinnar að fenginni umsögn forstjóra.

Ég vil taka fram að með þessu er ekki verið að ákveða flutning stofnunarinnar frá höfuðborgarsvæðinu, það er eitthvað sem þessi ráðherra hefur ekki í hyggju að gera, heldur að mögulegt verði að leita að húsnæði sem henti starfsemi stofnunar hér á þessu svæði og efla þjónustuna, m.a. með bættu aðgengi og samþættingu ákveðinna þjónustuþátta við Vinnumálastofnun, bæði á höfuðborgarsvæðinu og út um allt land. Einnig tel ég að stofnunin skuli hafa þjónustustöðvar í stað umboðsskrifstofa og að ráðherra ákveði endanlega staðsetningu þeirra þannig að slíkar breytingar verði unnar í fullu samráði við forstjóra stofnunarinnar og að fenginni umsögn hennar. — Í þessu tilviki er það hún.

Eins og áður segir er þegar hafin vinna við slíkar breytingar í starfshópi sem ég hef nýlega skipað og í eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins og forstjórar þeirra stofnana sem hlut eiga að máli. Enn fremur er lagt til að ráðherra verði heimilt að sameina þjónustustöðvar Tryggingastofnunar og þjónustu annarra opinberra stofnana eins og ég nefndi og er sú vinna einnig hafin í ráðuneytinu.

Í ákvæðum frumvarpsins sem fjalla um stjórn Tryggingastofnunar er lagt til að skerpt verði á skyldum formanns stjórnar um að gera ráðherra viðvart ef starfsemi, þjónusta eða rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli. Er þetta gert til að taka af allan vafa um eftirlitsskyldu stjórnar og upplýsingaskyldu formanns gagnvart ráðherra. Hvað varðar forstjóra Tryggingastofnunar er nýmæli að gerð verði krafa um að forstjóri hafi lokið námi á háskólastigi, hafi reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist í starfi og búi yfir þekkingu á sviði velferðarmála. Tel ég góðar og gildar ástæður fyrir þeirri kröfu að forstjóri Tryggingastofnunar uppfylli ríkar hæfniskröfur enda er um að ræða eina mikilvægustu stofnun þjóðfélagsins sem falin hefur verið framkvæmd mikilvægra lagabálka er snúa að velferðarkerfinu og velferð landsmanna og sýslar auk þess með stóran hluta fjárlaganna. Þá er hnykkt á því að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar

Einnig er í frumvarpi tekið mið af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi sem er nú til meðferðar í velferðarnefnd til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, þar sem lagt er til að úrskurðarnefndir á sviði velferðarmála verði sameinaðar í eina úrskurðarnefnd. Mun úrskurðarnefnd almannatrygginga því verða lögð niður frá sama tíma, verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði upp hugtakið „ráðstöfunarfé“ í stað orðsins „vasapeningar“, sem er löngu úrelt og hafa margsinnis komið fram tilmæli um breytta orðnotkun. Í lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra eru ákvæði um heimild til greiðslu svokallaðra „vasapeninga“ til heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum. Með því er efnislega kveðið á um að viðkomandi einstaklingar fái mánaðarlega greidda tiltekna fjárhæð til ráðstöfunar eftir að lífeyrisgreiðslur þeirra hafa fallið niður vegna dvalar á stofnunum. Því er lagt til að orðið „ráðstöfunarfé“ verði tekið upp í stað „vasapeninga“.

Í frumvarpinu er að finna nýmæli er varða beitingu stjórnsýslulaga við framkvæmd almannatryggingalaga þar sem sérstök áhersla er lögð á að haga skuli undirbúningi og málsmeðferð í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum. Jafnframt er áréttað að jafnræðisregla skuli gilda við ákvarðanatöku í sambærilegum málum.

Í frumvarpinu er enn fremur fjallað ítarlega um ósamrýmanleg réttindi og skörun bóta, en núgildandi ákvæði er úrelt og þarfnast breytinga. Er lagt til að kveðið verði skýrt á um að greiðsluþegi geti ekki notið fleiri en einnar tegundar bóta sem hann hefur áunnið sér fyrir sama tímabil, enda er það meginregla í bótarétti að ekki eru greiddar tvöfaldar bætur vegna sama atviks eða tímabils. Þó er gert ráð fyrir að þrátt fyrir meginregluna sé hægt að fá greiðslur sem ætlaðar eru til að mæta útlögðum kostnaði samhliða lífeyrisgreiðslum. Sem dæmi um slíkt má nefna að lífeyrisþegar geta fengið greiddar uppbætur á lífeyri vegna sérstakra útgjalda, enda ekki um að ræða greiðslur sömu tegundar. Einnig er í ákvæðinu gert ráð fyrir að kveðið verði á um skörun bóta samkvæmt öðrum lögum og er meginreglan sú að allar skattskyldar tekjur og greiðslur eru taldar til tekna við útreikning tekjutengdra bóta almannatrygginga. Í þessu sambandi ber þó að hafa hugfast að ýmsar greiðslur samkvæmt öðrum lögum hafa ekki áhrif á útreikning einstakra tegunda bóta almannatrygginga, t.d. fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Samkvæmt 49. gr. laga um almannatryggingar njóta einstaklingar í óvígðri sambúð ekki einungis sömu réttinda til almannatrygginga og hjón, heldur bera þeir einnig sömu skyldur. Lagt er til að bætt verði við nýjum málslið sem varðar fjármagnstekjur sambýlisfólks, en með því er áréttað að ákvæði laganna um fjármagnstekjur hjóna gildi einnig um sambýlisfólk og skulu þær ávallt metnar sem sameiginlegar tekjur þeirra. Einnig er lagt til að sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum og sem varað hefur lengur en eitt ár skuli lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá. Ástæða þess að lagt er til að þessu verði bætt við greinina er sú að með 37. gr. laga nr. 65/2010, um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist, var 49. gr. laga um almannatryggingar breytt og voru 2. og 3. mgr. greinarinnar felldar brott. Sú síðarnefnda sem kveður á um að sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum sem varað hafa lengur en eitt ár skuli lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá — náðuð þið ekki örugglega öllu þessu? — var felld brott fyrir mistök. Er hér lagt til að þetta verði leiðrétt og ákvæðið verði aftur sett inn í lögin.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerð verði breyting á orðalagi 50. gr. laganna sem varðar greiðslur til þriðja aðila. Er lagt til að skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins verði hert og því bætt við að sérstakar aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til að beiting þess komi til greina, enda ætti ekki að beita ákvæðinu nema í algjörri neyð. Þá er lagt til að í stað þess að vísa til hlutaðeigandi sveitarstjórna sé vísað til félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags og það eigi einnig við þegar um er að ræða greiðslu vegna framfærslu barna en ekki eingöngu vegna barnalífeyris.

Lögð er til sú meginregla að þegar einstaklingur sem fær greiddan lífeyri almannatrygginga afplánar refsingu í fangelsi, sætir gæsluvarðhaldi eða er úrskurðaður til dvalar á stofnun, t.d. réttargæsludeild, verði lífeyrisgreiðslur stöðvaðar um leið og vistun hefst en ekki eftir fjögurra mánaða samfellda fangelsisvist eða dvöl eins og nú er. Er einnig gert ráð fyrir því nýmæli að sama eigi við þegar lífeyrisþegi kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu, en ekki þykir ástæða til að greiða bætur til einstaklings sem er á flótta undan réttvísinni. Almennt missa fangar tekjur sínar þegar afplánun hefst og er með breytingunni lagt til að fangar sem fái greiddan lífeyri almannatrygginga verði jafnsettir öðrum föngum hvað þetta varðar. Þá er það nýmæli að hafi bótagreiðslur til lífeyrisþega verið stöðvaðar vegna gæsluvarðhalds en hann síðan ekki dæmdur til fangelsisvistar í kjölfarið, skulu bæturnar greiddar fyrir þann tíma sem þær féllu niður. Ekki þykir annað sanngjarnt en að í slíkum tilfellum skuli greiða bætur afturvirkt frá þeim tíma sem þær voru stöðvaðar.

Ég held að það sé mjög mikilvægt og vil ítreka það að þegar farið verður í gegnum breytingarnar sem hér eru lagðar til lesum við vel þau ákvæði sem halda sér inni og gerum okkur grein fyrir því að hér er samt sem áður tryggt að fjölskyldur fanga við þess háttar aðstæður geti fengið greiðslur ef aðstæður eru þannig.

Lög nr. 106/2011, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, voru samþykkt í september 2011. Voru þau sett í kjölfar yfirlýsingar stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum. Var þá tímabundið komið í veg fyrir víxlverkun í samspili örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Gildistími ákvæðisins rann út um síðustu áramót, en þess var vænst að fyrir árslok 2013 yrði endurskoðun á sambandi og samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga lokið og að sú vinna mundi leiða fram lausn á víxlverkan örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni er þeirri vinnu enn ekki lokið og því nauðsynlegt að bregðast við með einum eða öðrum hætti til að koma í veg fyrir að víxlverkunin hefjist að nýju.

Ljóst er að framkvæmd laga nr. 106/2011 er mjög kostnaðarsöm og mun kostnaður af framlengingu á gildistíma lagaákvæðisins verða gríðarlega mikill fyrir ríkissjóð. Skýrist það einkum af því að reikniregla sú sem notuð var við framkvæmd lagaákvæðisins leiddi til þess að frítekjumörk tekjutryggingar og heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega urðu umtalsvert hærri á gildistíma lagaákvæðanna en frítekjumörk samkvæmt almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð hefðu ella leitt til.

Vegna óvissu um hvort nægar fjárheimildir væru til að mæta þeim auknu útgjöldum sem hlytust af framlengingu lagaákvæðisins skipaði ég starfshóp til að greina hvaða leiðir væru mögulegar til skemmri tíma þegar gildistími lagaákvæðanna væri útrunnin. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum í skýrslu fyrr á þessu ári þar sem nefndar voru tilteknar leiðir, m.a. til að fyrirbyggja að víxlverkun hæfist að nýju. Ein þeirra leiða sem starfshópurinn lagði fram til skoðunar felur það í sér að gagnvart hverjum og einum lífeyrisþega verði gerður samanburður á annars vegar þeim fjárhæðum sem hann nyti miðað við frítekjumörk og skerðingarhlutfall ársins 2013, samkvæmt þeim sérreglum sem leiða af framkvæmd lagaákvæðisins ásamt 3,6% bótahækkunum sem urðu um síðustu áramót, og hins vegar miðað við almennar reglur ársins 2014. Samanburður á þessum reglum fari fram í endurreikningi bóta í ágúst 2015 vegna greiðsluársins 2014 og verður þeim útreikningi beitt sem er hagstæðari fyrir lífeyrisþegann.

Ég held að það sé mikilvægt að velferðarnefnd fari mjög vel yfir þetta. Þetta er mjög flókið og aðrar þær leiðir sem voru skoðaðar voru allar mjög flóknar. Hugsunin með þeirri leið sem ég nefndi er að koma í veg fyrir víxlverkanir og með ákvæði í frumvarpinu er lagt til að hún verði lögfest. Í 24. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir nýju ákvæði til bráðabirgða er varðar samanburð á útreikningi tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á árinu 2014, en í b-lið 2. töluliðar 26. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sams konar reglu er varðar heimilisuppbót, en það eru þeir tveir bótaflokkar sem víxlverkunin nær til. Þá er gert ráð fyrir því í 3. tölulið 26. gr. að lífeyrissjóðum verði á árinu 2014 áfram óheimilt að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslu samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaganna úr lífeyrissjóði.

Samkvæmt útreikningum starfshópsins munu þessar reglur, þ.e. sérreglur ársins 2013, koma betur út fyrir þá örorkulífeyrisþega sem hafa lífeyrissjóðstekjur á bilinu 27.400–261.924 kr. á árinu 2014. Fyrir þá örorkulífeyrisþega sem hafa lífeyrissjóðstekjur sem eru undir frítekjumarkinu, sem er 27.400 kr. á mánuði, skiptir ekki máli hvorri reglunni er beitt þar sem lífeyrissjóðstekjur þeirra hafa ekki áhrif á greiðslu tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Þeir sem hins vegar eru með lífeyrissjóðstekjur yfir 261.924 kr. munu aftur á móti fá greitt samkvæmt almennum reglum ársins 2014, en þær reglur koma betur út fyrir þann hóp.

Ef þetta frumvarp verður að lögum mun breytingin því hlífa tekjulágum lífeyrisþegum við afleiðingum þess að lagaákvæðið er útrunnið. Það er hugsunin með henni.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom áður inn á í máli mínu stendur yfir vinna við að samþætta ýmsa þætti í starfsemi Tryggingastofnunar og Vinnumálastofnunar. Einnig er unnið að gerð starfsgetumats í endurskoðunarnefnd hv. þm. Péturs H. Blöndals og verður allt kapp lagt á að unnt verði að lögfesta notkun starfsgetumats í stað örorkumats sem nú er notað og samhliða því verði starfsendurhæfingarúrræði aukin hér á landi.

Ég vil leggja ríka áherslu á að hægt verði að auka virkni sem flestra þeirra sem búa við örorku, enda hafa allar kannanir sýnt að meiri hluti öryrkja hefur vilja til að vinna og telur sig geta unnið meira en þeir hafa tækifæri til núna. Því tel ég rétt að sú heimild sem nú er að finna í lögum um almannatryggingar og lýtur að stuðningi við atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu verði flutt í lög um vinnumarkaðsaðgerðir og umsýsla málaflokksins flytjist þar með frá Tryggingastofnun til Vinnumálastofnunar. Tel ég að sú breyting samræmist betur markmiði þeirra laga um að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Þetta mun líka auka tækifæri til að samræma þetta úrræði öðrum vinnumarkaðsaðgerðum á vegum Vinnumálastofnunar og nægir þar að nefna það samstarf sem tekist hefur á milli Vinnumálastofnunar, Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar um að virkja hæfileika þeirra sem búa við skerta starfsgetu og virkja þannig alla hæfileikana.

Ég vil sérstaklega þakka Öryrkjabandalaginu fyrir að hafa komið með þessa tillögu um samstarf til ráðuneytisins og það er virkilega spennandi að sjá þetta verkefni fara núna af stað. Ég vil hvetja alla þá sem eru með ábendingar um störf að fara inn á vef Vinnumálastofnunar þar sem er hægt að skrá störf fyrir fólk sem er með skerta starfsgetu og að tryggja það að sem allra flestir geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu og notið sinna hæfileika.

Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umfjöllunar hv. velferðarnefndar.

Eins og hv. þingmenn hafa heyrt er þetta stór lagabálkur og miklar breytingar sem við leggjum til. Það mun eflaust taka tíma fyrir nefndina að fara vel í gegnum þetta. Í frumvarpinu eru ákvæði sem skipta máli hvað varðar tímasetningar þannig að ég vil leggja áherslu á að ef það eru einhverjar spurningar eða annað þá er ráðuneytið að sjálfsögðu tilbúið til að koma við vinnslu málsins og huga einmitt sérstaklega að því sem eru dagsetningarmál. Ég vil leggja áherslu á að það er fullur skilningur á því að þetta er stórt og viðamikið mál og þess vegna er mikilvægt að nefndin fái gott svigrúm til að fara yfir aðra efnisþætti.