144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:01]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki svo vera og mundi aldrei íhuga það að fara fram hjá löggjafanum. Við höfum hins vegar verið að fara yfir möguleika á að hagræða í rekstri ráðuneytisins og líka að bæta þjónustuna við notendur skjólstæðinga beggja þessara stofnana. Þá höfum við séð að það eru fjölmargir þættir, ekki hvað síst sem snúa að þeim sem eru með skerta starfsgetu, að auka samstarfið á milli Tryggingastofnunar og Vinnumálastofnunar.

Ég fól þeim starfshópi sem ég nefndi hér, forstöðumanna og starfsmanna ráðuneytisins, að fara yfir þá möguleika sem snúa að samþættingu þjónustugátta þessara stofnana hringinn í kringum landið. Ég taldi enga forsendu fyrir því að réttlæta það að vera með sameiginlega þjónustuskrifstofu úti á landi ef það sama yrði ekki gert hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar horfum við til þess að þeir sem fá lífeyri frá Tryggingastofnun gætu þá notið góðs af þeirri þjónustu sem náms- og starfsráðgjafar Vinnumálastofnunar veita.

Ég hefði líka gjarnan viljað sjá að við gætum bætt aðgengismál hjá Tryggingastofnun. Þó að maður sé vanur að hafa hana þar sem hún er þá held ég að hægt sé að bæta mjög aðstöðu og viðmót gagnvart skjólstæðingum; og raunar þá líka starfsumhverfi starfsmannanna sjálfra.

Hvað það varðar hins vegar að huga að sameiningu eða aukinni samþættingu þá er mér falið sem ráðherra og af ríkisstjórn að leita allra leiða til að hagræða. En það er ekki eitthvað sem maður gerir án þess að taka málið upp við þingið.