144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að það hafi verið nákvæmlega það sem ég sagði. Það sem verið er að leggja til, sem snýr að þeim sem eru dæmdir til fangelsisvistar, er að greiðslur til þeirra falli niður strax og þeir fara inn í fangelsið. Þeir sem hins vegar eru í gæsluvarðhaldi — og kemur í ljós að þeir eru ekki dæmdir til fangelsisvistar — ættu þá rétt á því að fá bæturnar fyrir þann tíma sem þeir voru í gæsluvarðhaldi.

Það sem ég var líka að nefna er að þetta er 56. gr. núgildandi laga um almannatryggingar og að 2. mgr heldur sér. Tryggingastofnun eða eftir atvikum Sjúkratryggingastofnun, eins og það er orðað í þessu tilviki, getur þá ákveðið að greiða bæturnar eða hluta af þeim maka og börnum eða einhverjum þriðja aðila sem sér um að bæturnar komi þeim að sem mestu gagni. Það er náttúrlega á þeirri forsendu að ekki sé verið að — og aftur vísa ég til 76. gr. stjórnarskrárinnar um það hvað velferðarkerfið á að gera.

Ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð til, að greiðslur falli strax niður en ekki eftir fjögurra mánaða samfellda fangavist, er sú að við teljum líka mjög mikilvægt, og enn á ný á grundvelli stjórnarskrárinnar, að menn séu þá í jafnri stöðu, að lífeyrisþegar séu að sumu leyti betur staddir þegar komið er inn í fangelsi en þeir sem eru með aðrar tekjur.

Virðulegi forseti. Það er kannski spurning hvort hv. þingmaður mundi þá kannski útskýra betur spurningu sína og þetta væri þá eitt af því sem velferðarnefnd gæti þá skoðað. Ég þekki hve þetta getur verið erfið staða fyrir utanríkisþjónustuna; við erum að tala um fólk sem er erlendis og líka hvernig við höfum það hjá þeim föngum sem eru af erlendum uppruna hér innan lands.