144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Líklega misskildi ég hæstv. ráðherra en ég trúi svo sterkt á gott hjartalag hennar að ég hef hugsanlega viljað skilja það á minn veg.

En málið varðar sem sagt örfáa fanga, tvo til þrjá; stundum er enginn í þessari stöðu. Sú staða hefur komið upp að tveir til þrír fangar eru við þær aðstæður að þeir hafa sloppið úr erlendum fangelsum en fá ekki að fara heim til Íslands og mega ekki vinna í landinu. Hvað gerir maður sem hugsanlega er veikur fyrir og hefur brotið af sér og þarf að sjá sér farborða en má ekki vinna og á hugsanlega enga ættingja heima, er jafnvel búinn að brjóta svo og brenna allar brýr að baki sér að hann hefur engan til að leita til? Það eru ekki mörg dæmi um þetta en þau eru nokkur.

Ég rakst á þessi dæmi eða þau rötuðu inn á mitt borð þegar ég var utanríkisráðherra. Þá komst ég að því að ég hafði enga fjárlagaheimild sem utanríkisráðherra til að reyna með einhverjum hætti að liðsinna þessum mönnum. Ég velti því hins vegar fyrir mér, sem ég stend hér og hugsa upphátt, hvort þessi staða sé þá ekki dekkuð með því að menn sem eru komnir út úr fangelsum — hvort þeir geti ekki notið almannatryggingabóta með þeim hætti sem hæstv. ráðherra var að segja þegar þeir koma út og þá hæfust greiðslur aftur.

Ég þekki málaflokkinn ekki nógu vel, ég veit ekki hvort svo má gerast þegar menn eru staddir í erlendu ríki. En í öllu falli er þarna um töluverða neyð að ræða hjá örfámennum hópi. Ef það er svo að lögin ná ekki yfir þetta þá hvet ég hæstv. ráðherra samt til að skoða þetta mál. Hún gæti hugsanlega bjargað með því mannslífum — ekki mörgum, en þetta er alvöruneyð hjá þeim sem í lenda.