144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur fyrir ræðu hennar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Það verður seint hægt að segja annað en að almannatryggingakerfið sé flókið og ég verð að viðurkenna að það var talsvert erfitt að plægja sig í gegnum þetta plagg og reyna að skilja hvaða áhrif breyting á einum stað getur mögulega haft á öðrum. Þess vegna hljóta allir að bíða eftir því með talsverðri óþreyju að vinnu við endurskoðun á almannatryggingalögunum ljúki. Þetta er ekki einfalt mál og einmitt vegna þess að kerfið er svo margstagað og bætt er svo erfitt að sjá hvaða áhrif ein breyting getur haft á öðrum stað.

Ég tek undir þau orð ráðherra að það sé mjög mikilvægt að við í hv. velferðarnefnd förum vel yfir orðskýringar en ekki bara orðskýringarnar heldur hreinlega allt orðalag vegna þess að það getur skipt gríðarlega miklu máli annars vegar að orðalag sé skýrt, svo það sé auðvelt að skilja lögin, og hins vegar líka sá andi sem orðalag hefur á það hvernig við skiljum lög sem þessi. Aðeins meira um orðskýringarnar, ég tek sérstaklega undir að það er mjög jákvætt að lagt sé til að orðið vasapeningar fari út og ráðstöfunarfé komi í staðinn.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að vekja sérstaklega máls á. Ég held að það sé mikilvægt að við íhugum vel hvernig málunum er háttað núna og hvaða áhrif mögulegar breytingar geta haft á þá einstaklinga sem lögin taka til. Þar langar mig að ljá máls á 16. gr. sem varðar fanga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nú afplánar lífeyrisþegi refsingu í fangelsi, sætir gæsluvarðhaldi eða er á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun og skulu þá falla niður allar bætur til hans …“

Ég staldra pinkulítið við orðalagið allar bætur. Oft hefur verið talað um að örorkulífeyrir, þ.e. sá bútur í örorkubótunum, sé meðal annars til þess að vega upp á móti þeim kostnaði sem lífeyrisþegi getur haft af skerðingum sínum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hugum að þessu því að einstaklingur sem dæmdur hefur verið til fangelsisvistar eða einhvers konar annarrar afplánunar á auðvitað að geta viðhaldið færni sinni meðan hann sætir refsingu. Ég held að það sé mjög mikilvægt í því ljósi að fangavist á að vera betrunarvist, er það ekki? Þá hljótum við að þurfa að stuðla að því að einstaklingurinn haldi færni sinni meðan á afplánuninni stendur. Þetta er atriði sem mér finnst að við eigum að skoða og sjá hvort þarna eigi kannski að breyta þessu með að „allar bætur“ hans falli niður.

Svo er annað mál sem ég hef nokkrar áhyggjur af. Segja má að það falli undir 18.–21. gr. Það fjallar um skörun bóta, þ.e. réttarstöðu þeirra sem hafa verið virkir á vinnumarkaði erlendis og eiga lífeyrisréttindi þar. Sá hópur fólks er sá hópur lífeyrisþega sem er hvað verst settur fjárhagslega vegna þess að hann á bara hlutarétt til bóta á Íslandi. Þrátt fyrir milliríkjasamninga um að fólk eigi að fá greiddan þann hlut sem það á í öðrum löndum hefur því miður gengið mjög illa að innheimta og fá þessar greiðslur inn á reikning lífeyrisþeganna. Ég hefði viljað að við skoðuðum hvernig við getum aðstoðað þessa einstaklinga betur til að tryggja þeim framfærslu. Reyndar segir í 21. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerðum.“

Í lögum um félagslega aðstoð þar sem fjallað er um framfærsluuppbót sem lífeyrisþegar hafa fengið greidda ef þeir ná ekki tiltekinni lágmarksfjárhæð á bótum sínum, sem er rúm 188 þúsund, og reglugerð um beitingu þess að greiða þessa framfærsluuppbót hefur, líkt og við reikning á lífeyrisgreiðslum, verið notuð hlutfallsregla þannig að einstaklingar hafa fengið greidda hlutfallslega framfærsluuppbót sem þýðir að þetta fólk kemur mjög illa út fjárhagslega og hefur mjög lágar upphæðir sér til framfærslu. Þessi hópur er ekkert rosalega stór, en hann er mjög illa staddur fjárhagslega. Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að skoða sem allra best hvernig við getum aðstoðað hann og tryggt að þetta fólk hafi lágmarksframfærslu. Það er örugglega ekki sérlega einfalt mál en ég held að það sé mjög mikilvægt.

Að lokum að aðeins jákvæðari þáttum. Í 26. gr. segir, með leyfi forseta, að ráðherra sé „heimilt að fela Vinnumálastofnun að semja við fyrirtæki eða stofnanir um að þau ráði til vinnu öryrkja sem fá greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri eða slysaörorkubætur undir 50% og hafa vinnugetu sem ekki hefur nýst á vinnumarkaði og ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en lífeyri almannatrygginga“. Mér finnst mjög jákvætt að ætla að stíga þetta skref og færa málefni fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega undir almenna stofnun, þ.e. stofnun sem sér um vinnumarkaðsmál almennt. Ég held að það sé mjög í anda samnings Sameinuðu þjóðanna að fjalla um málin almennt en ekki hafa þau í sérgreindum stofnunum.

Þess vegna hlakka ég mjög til þess að sjá hvaða umsagnir þetta tiltekna atriði fær þegar frumvarpið verður sent út. Ég held að þetta geti skipt mjög miklu máli um almenna stöðu fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega í samfélaginu. Með þessari breytingu yrði það partur af hinni almennu heild, þ.e. þeim sem eru á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Það sem ég held, svo ég endurtaki það, að við þurfum sérstaklega að hugsa um er annars vegar það hvort allar bætur skuli falla niður þegar lífeyrisþegi afplánar refsingu og hins vegar það hvernig við getum tryggt og bætt stöðu þeirra sem hafa skertar bætur vegna þess að þeir hafa verið á vinnumarkaði erlendis. Það hefur ákveðinn fælingarmátt, mundi ég segja, ef menn hugsa um hvort þeir vilji búa og starfa erlendis að vita af því að ef eitthvað kemur upp á sé réttarstaða þeirra og staða til þess að fá bætur úr hinu almenna kerfi mjög erfið. Ég held að við eigum að skoða þetta mjög vel.