144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:27]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér voru nokkur atriði nefnd hjá hv. þingmönnum í ræðum þeirra sem ég vildi bregðast við og síðan tel ég sjálfsagt og eðlilegt að velferðarnefnd fari yfir þau atriði í meðferð málsins.

Hvað varðar 16. gr. og þá breytingu sem verið er að gera og snýr að föngum þá tel ég að í þessu tilviki séum við einmitt að leggja áherslu á að fangar séu jafnsettir öðrum í samfélaginu. Nú er það þannig að aldraðir einstaklingar sem fara á hjúkrunarheimili greiða fyrir það með því að bætur þeirra lækka og þeir fá ráðstöfunarfé í staðinn. Við höfum yfirleitt talað um vasapeninga en ætlum að breyta því í ráðstöfunarfé. Hér er lagt til nákvæmlega sama fyrirkomulag gagnvart föngum. Þegar þeir sem eru á vinnumarkaði fara í fangelsi falla í langflestum tilvikum niður tekjur þeirra. Í ljósi þess að viðkomandi hefur væntanlega vinnugetu fær hann dagpeninga fyrir þá vinnu sem hann leggur á sig innan fangelsis.

Varðandi ábendingar, sem ég vil þakka fyrir, um heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu sem öryrkjar þurfa á að halda er það alveg skýrt samkvæmt lögum. Mér skilst að hæstv. innanríkisráðherra hafi í hyggju að leggja fram frumvarp um fullnustu refsinga. Þar eru mjög skýr ákvæði um það hver séu réttindi fanga. Þar á meðal er heilbrigðisþjónusta, ýmis námsúrræði og annað sem tryggt er að fangar eigi rétt á og fái með þeim lögum. Lyf eða heilbrigðisþjónusta eða einhvers konar endurhæfingarúrræði sem öryrki þyrfti á að halda mundu að sjálfsögðu falla þar undir og viðkomandi ætti að sjálfsögðu rétt á því áfram þegar hann færi í fangelsi. Það snertir ekki að neinu leyti greiðslur úr almannatryggingakerfinu.

Hvað varðar þær ábendingar sem snúa að réttindum fólks og ávinnslu réttinda í kerfinu eru í raun ekki lagðar til neinar sérstakar breytingar á því í frumvarpinu hvernig því hefur verið háttað. Ávinnslan verður með sambærilegum hætti. Eins og kom fram eru það ekki margir einstaklingar sem hafa takmarkaðan rétt gagnvart almannatryggingum en þeir eru samt sem áður þó nokkrir eftir því sem aukist hefur að fólk flytji á milli landa. Það kom fram í ræðu minni að velferðarkerfi okkar er náttúrlega miklu, miklu víðtækara en almannatryggingakerfið og önnur kerfi eru hugsuð til að taka á þessu. Ég nefni framfærsluaðstoð sveitarfélaganna þar sem komið er til móts við þá einstaklinga sem eiga takmarkaðan eða lítinn rétt í almannatryggingakerfinu.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt, eins og rætt var um hér í ræðustól, að fólk geri sér grein fyrir því að réttindi okkar í velferðarkerfinu byggjast ekki í mörgum tilvikum fyrst og fremst á því að við séum fædd á Íslandi og séum íslenskir ríkisborgarar heldur á þátttöku okkar og búsetu í landinu og það er einnig til að tryggja að við séum að mestu leyti í sambærilegri stöðu og aðrir innan EES-svæðisins. Það er hins vegar nýfallinn dómur hjá Evrópudómstólnum um greiðslu bóta og svigrúm landa til að ákvarða mismunandi greiðslur. Ég held að það sé eitthvað sem aðildarríki að EES-samningnum og Evrópska efnahagssvæðinu þurfa að fara mjög vel yfir. Það olli mér að minnsta kosti ákveðnum áhyggjum, þær vísbendingar sem þar komu fram og túlkun dómstólsins. En við þurfum að sjálfsögðu að fara eftir því sem dómstólarnir dæma.