144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins meira út í 16. gr. sem ég ræddi hér í ræðu minni áðan. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er þetta til þess að ákveðið samræmi verði þarna á milli og bótagreiðslna undir öðrum kringumstæðum. En það sem ég held að löggjafinn hljóti að hafa verið að hugsa upprunalega þegar á var settur þessi fjögurra mánaða „buffer“ eða hvað maður á að kalla það, að riðla ekki fjárhag fólks við það að einhver sé dæmdur, segjum til fangelsisvistar en sitji einungis inni í kannski tvo mánuði, við það mundi ekki riðlast fjárhagur einstaklings án þess að hann hafi í sjálfu sér verið dæmdur til þess.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, með skilningi á því að samræmi þurfi að vera hér á milli, hvort ekki væri nærri lagi þá að laga stöðuna hjá öðrum hópum.