144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega svarið. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um að þetta eigi að vera betrunarvist. Ég ætla nú að forðast að halda aðra ræðu um það vegna þess að ef við ætlum að fara að ræða um betrunarvist er um ýmislegt að ræða því að þar er víða pottur brotinn, en slíkt á svo sem heima í annarri umræðu.

Hæstv. ráðherra bendir á að 2. mgr. 56. gr. laganna haldi sér, en hún er svohljóðandi, virðulegi forseti, eða með breytingum er hún svona, virðulegi forseti:

„Tryggingastofnunin […] getur þó ákveðið að greiða bæturnar, eða hluta af þeim, maka hans og börnum eða einhverjum þriðja aðila sem sér um að bæturnar komi þeim að sem mestu gagni.“

Þarna getur jú Tryggingastofnun vissulega látið bætur fara til einhvers annars, þá væntanlega í þeim tilgangi riðla ekki fjárhag fólks vegna mjög vægs dóms. En með hliðsjón af því að þessi fjögurra mánaða „buffer“ hljóti að vera til þess að hindra það að þá er kannski við hæfi að setja einhver skýrari skilaboð um það hvernig beri að haga þeim málum. Mér finnst alla vega þessi fjögurra mánaða „buffer“ hljóti að vera þarna af ástæðu.

Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra að staða lífeyrisþega eigi ekki að vera frábrugðin þeim sem er á almennum vinnumarkaði. Ég veit alveg hvernig er með möguleika fanga að vinna fyrir sér inni í fangelsum o.s.frv. Ég ætla að láta í friði, eins og ég segi, að ræða hér hvað má og þarf að bæta þar. En mér finnst mikilvægt að ef 2. mgr. laganna á að koma til móts við það að þessi fjögurra mánaða „buffer“ falli niður finnst mér alla vega koma til greina af minni hálfu að skýra það ákvæði þannig að tilgangur þess og áhrif séu skýr. Ég velti fyrir mér viðhorfi hæstv. ráðherra til þess.