144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Frumvarpið felur í sér þær breytingar að ákvæðum slysatrygginga almannatrygginga verði komið fyrir í sérlögum og er nátengt því frumvarpi sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra gerði grein fyrir fyrr á þessum fundi og lagði fram frumvarp þar að lútandi til breytinga á lögum um almannatryggingar þar sem ákvæði slysatrygginga verða felld brott.

Markmið áformaðra breytinga er að ljúka þeirri uppskiptingu almannatryggingalaganna sem hófst árið 2008 þegar sjúkratryggingakaflinn var tekinn úr lögunum um almannatryggingar og sett sérstök lög um sjúkratryggingar. Um eðlisólíka þætti almannatrygginga er að ræða þar sem tryggingavernd eða réttindaávinnsla, gildissvið og fjármögnun er ólík. Ætlunin er að lög um slysatryggingar almannatrygginga standi sjálfstætt við hlið laga um sjúkratryggingar og laga um almannatryggingar og myndi þannig heildstæða lagaumgjörð um meginþætti almannatrygginga.

Með sérlögum um slysatryggingar má ætla að aðgengi að ákvæðum trygginganna verði betra og inntak meginþátta almannatrygginga skýrara. Ekki stendur til að sinni að endurskoða efni trygginganna eða orðalag ákvæða og er því miðað við að bætur og bótafjárhæðir verði þær sömu og áður og skilyrði til öflunar bóta óbreytt. Aftur á móti er með bráðabirgðaákvæði lagt til að fram fari efnisleg endurskoðun innan tveggja ára frá gildistöku laganna verði frumvarpið samþykkt. Má ætla að sú endurskoðun verði aðgengilegri þegar búið verður að koma ákvæðum slysatrygginga í sérlög.

Einu nýmælin í frumvarpinu er að finna í markmiðsákvæði 1. gr. og í 21. og 22. gr. er kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra og heimild hans til að birta reglugerðir Evrópusambandsins vegna EES-samningsins og almannatryggingareglu stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi er helsta markmið þeirra breytinga sem felast í frumvarpinu að auka skýrleika meginþátta almannatrygginga og aðgengi almennings að reglum slysatrygginga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2015 samhliða gildistöku breyttra laga um almannatryggingar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Leyfi ég mér því að leggja til að frumvarpinu verið vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.