144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki vegna þess að ég sé ósáttur við ræðu hv. þingmanns, sem var alveg ágæt, enda er hann að fjalla um sín hjartfólgnu hugðarefni sem eru ferskvatnsfiskar meðal annars, að ég kem hér í ræðustól í andsvari, heldur til að fyrirbyggja að það fari á flot nokkur misskilningur um mín viðhorf eða grundvallarafstöðu til þessara mála eins og hún hefur verið.

Það er sem sagt ekki þannig að ég hafi verið, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sínum tíma eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra síðar, þeirrar skoðunar að Hafrannsóknastofnun ætti að færast undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Fyrir því hef ég, að ég tel, nokkuð gild rök þó að ég skilji mjög vel hitt sjónarmiðið, og það er mikið til í því.

Þar ræður meðal annars að Hafrannsóknastofnunin er mjög nátengd greininni. Hún er að miklu leyti hagnýt rannsóknar- og mælingastofnun í þágu atvinnugreinarinnar. Hún byggist á miklu samstarfi við greinina, flotann til dæmis, um sameiginleg rannsóknarverkefni; talsvert af upplýsingum úr mælitækjum fiskiskipanna er notað, þau eru notuð sem tæki til rannsókna o.s.frv. Það eru ýmsar praktískar ástæður sem leiddu mig að þeirri niðurstöðu að ekki væri skynsamlegt, alla vega ekki á því stigi mála sem við vorum stödd á á árinu 2011, að fara að hrófla við stöðu Hafrannsóknastofnunar að þessu leyti. Ég lagði hins vegar mitt af mörkum til að byggja mjög góðar brýr á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins einmitt um þessa starfsemi og tengja hana saman milli ráðuneytanna.

Ég féllst hins vegar á það, með rökum sem færð voru fram eftir úttekt á starfsemi Veiðimálastofnunar, að hún og starfsemi hennar lægi það nálægt auðlinda-, verndar- og umsjónarhlutverki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að eðlilegt væri að hún færðist þangað með stofnun þess ráðuneytis; ég féllst á að hún færi undan mínu ráðuneyti (Forseti hringir.) og yfir í hitt.