144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[19:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ræða aðeins um þetta mál sem við höfum fjallað töluvert um í allsherjar- og menntamálanefnd. Eins og framsögumaður nefndarálitsins gerði réttilega grein fyrir erum við í grundvallaratriðum sammála um tilganginn en þetta snýst um útfærsluna, við í meiri hlutanum erum ekki sammála um framkvæmdina.

Það var ánægjulegt að sjá á fjárlaganefndarfundi áðan að inn í þetta væru komnir fjármunir. Ég held að það hafi komið okkur í allsherjar- og menntamálanefnd mjög á óvart að gert væri ráð fyrir því, því að við lögðum vissulega á það mikla áherslu. Hafandi starfað í þeirri stétt sem hér er verið að taka inn í launað námsorlof og hafandi verið kennari og vita hvernig það gengur fyrir sig, að margra ára bið er, sérstaklega af því að lítið fé fer í þetta og átti ekki að veita til viðbótar, þá var það mjög sérstakt. Það virtist ráðherrann ekki vita þegar við ræddum málið í upphafi, en það er búið að laga og það er vel.

Eins og kemur fram í áliti minni hluta nefndarinnar um 2. gr. er svolítið sérkennilegt að gera þurfi breytingu þar á. Mér fannst ekki fást viðunandi upplýsingar um hvað væri eðlileg aðstaða. Er það til dæmis mötuneyti við hvern skóla? Hvenær teljast skilyrðin uppfyllt um starfsaðstöðu, aðbúnað og þjónustu? Af því að því er ekki fyrir að fara í öllum framhaldsskólum landsins, þ.e. þeir hafa til dæmis ekki allir mötuneyti. Mér dettur það í hug eitt og sér ásamt kannski eflaust einhverju fleiru.

Hins vegar eiga þeir ekki að fá viðurkenningu nema að uppfylla ákveðna hluti eins og hér kemur fram. Þess vegna er mikilvægt að það sé listað svolítið upp hvað það innihaldi því það kom ekki fram í þeirri umræðu.

Menntaskólinn á Tröllaskaga kom fram með mjög þarfa ábendingu og skólameistarinn þar kom til fundar við okkur. Ég held að allir hafi haft gaman af þeirri heimsókn þar sem málin voru sett mjög skýrt fram. Sá skóli byggir mikið á tölvum en ekki bókum og er þar af leiðandi með rafrænt efni að einhverju leyti sem kennarar semja sjálfir sem síðan þarf að skanna inn og deila með nemendum. Og ég hef velt fyrir mér hvernig það eigi að fara fram á annan hátt. Eins og hér er tekið fram þurfa skólarnir að vera skilgreindir út frá aðbúnaðinum, að sá búnaður sé til staðar sem nútímaskóli þarf að hafa, þ.e. hugbúnaður, tækjabúnaður og netsamband við hæfi því það er ekki þannig alls staðar og það var í rauninni ekki þannig hjá okkur. Það þurfti að leggja sérstaklega til okkar til að það væri hægt.

Þetta er umhverfi framtíðarinnar, ekki bara nútíðarinnar, sem er að herja á okkur. Þetta er umhverfi framtíðarinnar og það hefur sýnt sig. Svo að ég víki að því sem við töluðum um með fjarvinnu og fjarkennslu má nefna í því sambandi fjarmenntaskólann sem sameinar tólf skóla á landsbyggðinni í því að nýta sér tækni og þekkingu til að kenna yfir netið og gerir mönnum kleift í leiðinni að geta verið með öflugt og fjölbreytt námsframboð sem annars væri kannski þessum litlu skólum öllu erfiðara.

Með dagafjöldann, við hnutum um það að ráðherra gæti ákveðið hann með reglugerð en ekki með lögum eins og nú er. Og það var heldur ekki beinlínis rökstutt af hverju breyta þyrfti því og setja í reglugerð. Ég sé ekki ástæðu til að ráðherra þurfi að hafa svona opna heimild heldur sé það fyrst og fremst bundið í lög. Við á þingi gætum fjallað þá um þann lagaramma. Framtíðarstefna framhaldsskóla virðist vera svolítið mikið unnin í ráðuneytinu núna án mikillar samræðu í þinginu. Þetta er kannski eins, að það þurfi í rauninni að vera fast og niðurneglt svo ekki sé hægt að hræra eitthvað með þetta.

4. gr. tekur kannski mesta plássið og fjallar hún um innheimtu gjalda. Það er alveg rétt að þetta var rætt hér á síðasta þingi, ég tók reyndar ekki þátt í því. Ég held að það sé vilji okkar allra og ég trúi eiginlega ekki öðru en að framhaldsskólastigið upp í 18 ára aldur verði gjaldfrítt, frekar en að fara í hina áttina og bæta þar í, því að eins og hv. framsögumaður kom inn á greiða nemendur mjög háar fjárhæðir fyrir það eitt að vera í skóla.

Við veltum því líka upp að ef á að innheimta gjald fyrir þetta verkefni sem hér verður líklega samþykkt — ef nemandi borgar ekki fyrir þetta rafræna efni getur hann þá ekki stundað áfangann eða fær hann ekki inngöngu í skólann eða hvað verður gert? Það er eitthvað sem okkur finnst ekki hafa verið tekið á. Það er ekki bara að þetta sé allt svona opið og engin skilgreining á bak við rafræn námsgögn heldur er þetta líka óleyst atriði. Þetta er mikilvægt vegna þess að þetta snýr auðvitað að jafnrétti til náms. Við vitum að nemendur kaupa sér ekki allir bækur sem þeir þurfa að kaupa. Sumir ákveða að sitja einhvern tiltekinn kúrs og láta slag standa og kaupa sér ekki bók, eru með gamalt eintak eða eitthvað slíkt og komast upp með það. Þessu er ósvarað. Við teljum að það þyrfti að gera þetta alveg ljóst, að nemendum í það minnsta væri ekki meinaður aðgangur að námi ef þeir greiddu ekki fyrir rafrænt efni.

Hér er um að ræða tilraunaverkefni. Það er líka eitt af því sem er athugunarvert að hér er lagt til að einhverjir einstakir skólar, jafnvel eitthvert einstakt nám, t.d. var gullsmíðanám nefnt af því að það væri sértækt og ekki mikið til af námsefni, einhverjir aðilar sáu fyrir sér að það gæti verið að hluta tilraun, en það er ekkert sagt um það. Það getur í rauninni hvaða skóli sem er í sjálfu sér valið að fara út í slíkt á kostnað nemenda sinna. Það er eitthvað sem okkur í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar finnst ekki skynsamlegt. Um leið og við segjum að auka þurfi klárlega aðgang að rafrænu námsefni þyrfti — af því að hér var Námsgagnastofnun nefnd, ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því hvort einhver ætti að halda utan um það, einhver tiltekin stofnun eða hvernig það væri. Væntanlega þarf samt að gera það með einhverjum hætti ef til verður gagnagrunnur, þ.e. ef skólum er ekki falið það með beinu fjárframlagi að búa til námsefni sem samræmist kröfum um skólanámskrár og það sem þær eiga að innihalda. Ég sé það líka alveg fyrir mér að skólar geta valið að verða rafrænir skólar ef þeir fá til þess fjármagn en ekki að það auki kostnað nemenda. Og að það sé ekki endilega allt miðlægt af því að það þarf ekki að vera þannig. Ég sé það í þeim skóla sem ég kem að að það getur líka aukið gríðarlega fjölbreytni í skólakerfinu að gera það með þeim hætti. En auðvitað er það alltaf undir það sett að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til námsefnis. En það getur líka þýtt aukinn kostnað fyrir ríkið að gera þetta á þennan hátt í staðinn fyrir að vera með gagnabanka þar sem allir þurfa að skila inn tilteknu efni.

Hér er tekið fram að tilgreina eigi fjárhæðir sem eiga að mæta kostnaði vegna námsgagna en að það ákvæði hafi ekki komið til framkvæmda. Ef þetta verður samþykkt núna þá er það í rauninni í fyrsta skipti sem heimilt verður að taka gjald fyrir námskrá. Skólar innheimta efnisgjöld sem snúa eða eiga að snúa að einhverju tilteknu sem hægt er að skilgreina með beinum hætti, t.d. smíðum, textíl eða einhverju slíku, sem er útlagður kostnaður skólans.

Minni hlutinn bendir á að ljóst sé að tilgangur ákvæðisins í 51. gr. sé að draga úr kostnaði vegna skólagöngu og vilji löggjafans til að stefna í átt að gjaldfrjálsum framhaldsskóla komi skýrt fram í ákvæðinu. Og styður við þá hugsun okkar Vinstri grænna að minnsta kosti að allir eigi jafnan rétt til náms óháð efnahag og að menntun skipti samfélagið miklu máli. Af því að við höfum núna svolítið verið að tala um framhaldsskólann almennt og hvernig vegið er að því kerfi með fjárlagafrumvarpinu þá finnst mér enn frekar að þetta sé eitthvað sem geti ekki án atrennu farið í gegn.

Ég held að við getum tekið undir það sem BSRB gerir, eins og við vekjum athygli á, að þessi gjaldtaka sé hvergi heimil samkvæmt núgildandi lögum. Við höfum áhyggjur af því að ef opnað verður á slíkt sé það grundvallarbreyting, að framhaldsskólar fari að gera kröfur á að geta innheimt fyrir fleira en einungis rafræn námsgögn. En af því að hér var komið inn á að meiri hlutinn væri að útdeila peningum, og það virðist sannarlega vera borð fyrir báru og það er vel, finnst okkur kannski skynsamlegt að hann setti í þetta verkefni fjármuni. Ég veit að meiri hluti fjárlaganefndar er að vinna tillögugerð, væntanlega í þessum töluðu orðum, og því hvet ég hann til að setja í þetta fjármuni og sjá til þess að einhverjir tilteknir skólar verði valdir sem eru ólíkir að uppbyggingu og hefðu áhuga á því að fara í þetta verkefni, að fá til þess framlag til að þurfa ekki að rukka nemendur sína.

Virðulegi forseti. Ég tek undir að góð vinna var í málinu í nefndinni og allir fengnir til sem um var beðið og höfðu sent inn umsagnir. Það var í rauninni kannski í þessu atriði sem helst skildi leiðir hjá okkur. Mér finnst þetta ekki vera eitthvað sem hægt er að prófa. Það þýðir að einhverjir nemendur verða hluti af tilraun sem eykur þá á misrétti, ég held að það sé ekki góð leið. Ég vona að við náum að breyta þessu áður en það verður að veruleika.