144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[19:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, þetta er einmitt það sem ég var að ræða hér áðan. Ég vísaði til þess að kannski væri ekki endilega betra að námsgögn væru vistuð á tilteknum gagnagrunni, heldur gætu skólar fengið líka að takast svolítið á við þetta sjálfir, þ.e. að þetta þyrfti ekki að vera eins í öllum skólum. Það er hluti af þeirri nýsköpun sem mér finnst fylgja því formi að vera með rafræn námsgögn. Og ég tek undir þá hugleiðingu að þetta hlýtur eiginlega að vera dýrara. Við komum bæði inn á gömlu bækurnar og það að ákveða jafnvel að kaupa sér ekki bók eða eitthvað slíkt og maður kemst samt einhvern veginn í gegnum það. Ef eingöngu eru rafræn námsgögn í boði þarf væntanlega að hafa aðgangskóða eða eitthvað slíkt. Ef maður hefur ekki efni á að borga sig inn til þess að fá þennan aðgangskóða eða maður fær jafnvel ekki inngöngu hlýtur að vera kominn upp gríðarlegur aðstöðumunur.

Það þarf ekki í sjálfu sér endilega að vera dýrara að gera rafrænt námsefni en það getur verið það. Það getur líka kannski fyrst og fremst snúið að því að það eykur aðstöðumun nemenda og færi til að sinna sínu námi, af því að það hlýtur að þurfa að loka aðganginum með einhverjum hætti ef menn ætla eingöngu að vera með slíkt efni. Í mínum skóla er það samt þannig að aðgangur er bara í formi þeirra gjalda sem nemendur greiða í skólann, en það er auðvitað blandað efni, þ.e. bæði skannað efni og að einhverju leyti efni sem kennararnir hafa samið sjálfir. Sú vinna hefur að minnsta kosti ekki verið verðlögð, (Forseti hringir.) ég held að skólinn hafi ekki fengið neitt sérstakt framlag út af henni, sem hann kannski þyrfti einmitt til að geta gert enn betur í þessu.