144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[19:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vildi inna hana eftir öðrum þætti þessu tengdum. Ég velti því fyrir mér hvort í nefndinni hafi eitthvað verið rædd tengsl þessa máls við síðan getu skólanna til að bjóða í reynd upp á rafrænt nám.

Nú vil ég nefna aðra dæmisögu af ferðum mínum um landið, þegar ég heimsótti framhaldsskólann í Grundarfirði sem byggir alfarið á rafrænu námsefni og rafrænum námsgögnum og beinlínis er hvatt til þess í öllu skólahaldi að nemendur nýti upplýsingatækni til hins ýtrasta. Ekki nóg með það heldur sinnir skólinn líka framhaldsskólahlutverki fyrir sunnanverða Vestfirði. Og það er ekki akstursfjarlægð þar á milli þannig að það er grundvallaratriði að fjarskiptasamband leyfi þetta.

Nettenging á norðanverðu Snæfellsnesi er svo slæm að þegar nemendur koma í skólann með fartölvuna, sem þeim er uppálagt að hafa með sér í skólanum, og snjallsíma, sem flest ungmenni eiga í dag, þá ræður tölvukerfið ekki í skóla sem gengur út á hagnýtingu upplýsingatækni við að nemendurnir séu með tækin í skólanum. Og það þarf að biðja nemendurna um að slökkva á símum og skilja þá eftir, af því að kerfið ræður ekki við að tækni sem skólinn byggist á sé nýtt.

Var þetta rætt í nefndinni, tengslin við getu skólanna yfir höfuð til að nýta sér tækifærin í rafrænu námsefni og hvaða grunngerð í samfélaginu þurfi að vera fyrir hendi til að þetta sé mögulegt, í netsambandi og ljósleiðaratengingum þá sérstaklega?