144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég geri líka að umtalsefni hér undir þessum lið, störf þingsins, vinnubrögðin sem við höfum fengið að kynnast í því máli [Kliður í þingsal.] sem við ræddum talsvert í gær (Gripið fram í: Uss!) (PVB: Virðulegi forseti. Er hægt að þagga niður í þingmönnum?) og er hluti af bættri menningu í þinginu. — Leyfum fólki sem er í pontu að tala. — Við sáum þetta kannski fyrir þegar tillögu hæstv. umhverfisráðherra um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki yfir í nýtingarflokk var vísað til atvinnuveganefndar í byrjun en ekki til hv. umhverfis- og samgöngunefndar án fullnægjandi raka. Ég taldi þá og sagði að hér hlyti að vera um misskilning að ræða. Í ljósi þess að málið hafði áður verið hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd leit ég svo á að um misskilning væri hreinlega að ræða. En það kom á daginn að hér voru pólitískar fyrirætlanir sem birtast svo í þeirri tillögu sem nú hefur verið lögð fram og er ekki með nokkrum hætti hægt að kalla breytingartillögu við þá einu tillögu sem byggir á mati verkefnisstjórnar. Við getum svo haft okkar skoðanir á þeirri tillögu, en þegar meiri hluti hv. atvinnuveganefndar fer þá leið að bæta sjö virkjunarkostum við, sem ekki hefur verið fjallað um af hálfu núverandi verkefnisstjórnar sem gert er ráð fyrir í lögum um rammaáætlun að verkefnisstjórn fjalli um, þá getum við ekki talað um hefðbundna breytingartillögu nefndar við þingsályktunartillögu.

Ég hlýt að gera þá kröfu að það verði skoðað af hálfu Alþingis hvort þetta samrýmist hreinlega lögum um rammaáætlun þar sem kemur klárlega fram að verkefnisstjórn skuli fjalla um tillögur og ráðherra skuli svo taka afstöðu til þeirra tillagna og leggja þær fram.

Mér þykir það lögfræðiálit sem hefur verið kynnt hv. atvinnuveganefnd og kemur nota bene frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, ekki frá umhverfisráðuneytinu sem fer með málaflokk rammaáætlunar — ég sé ekki betur en að þarna séu (Forseti hringir.) enn mörg vafamál uppi. Ég hlýt að gera þá kröfu að áður en þingið heldur áfram með þetta mál (Forseti hringir.) taki það sjálfstæða afstöðu til þess hvort þessi málsmeðferð (Forseti hringir.) samrýmist lögum um rammaáætlun.