144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hér í gær var farið mörgum og ljótum orðum um vinnubrögð atvinnuveganefndar í sambandi við tillögugerð varðandi virkjanir á Suðurlandi. Við sem komum ný að þessu máli og erum að kynnast því rækilega höfum séð þá meinbugi sem hafa verið á því frá upphafi. Það er alveg ljóst að á síðasta kjörtímabili voru framin þau svik að færa virkjunarkosti úr nýtingu í biðflokk. Það var niðurstaða rammaáætlunar þá. Það er mjög mikilvægt að við stillum klukkuna upp á nýtt í því. [Hlátur í þingsal.] Það er mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Það hefur líka komið fram í þessari vinnu að verkefnisstjórnin hefur verið að vinna við umhverfismat framkvæmda sem kemur ekki til álita fyrr en kemur að framkvæmdastigi. Það er annað sem við þurfum að hafa í huga áður en við rjúkum upp til handa og fóta með ljótum orðum og leiðindum að við þurfum að vinna saman að þessu verkefni.

Það var líka talað um að við værum að rjúfa sátt í samfélaginu, að við færum gegn fólkinu. Ég vil minna á að 17. september 2011 ógilti Héraðsdómi Reykjavíkur ólöglega ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, að neita að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps á þeim tíma. Hvað var það annað en inngrip gegn vilja fólksins í landinu, hvað það vildi gera í sínum hreppum? Við erum ekki að fara í slík inngrip. Við erum að fara að vinna með fólkinu og fara að vilja þess í virkjunarmálum.