144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða um heilsu í dag, ekki rammaáætlun og virkjanir að þessu sinni. Góð heilsa er gulli betri. Ég kýs enn og aftur að ræða um lýðheilsumál í þessum ræðustól. Góð lýðheilsa eykur hamingju fólks og lífsgæði og sparar auk þess ríkinu miklar fjárhæðir við rekstur heilbrigðiskerfisins. Allir vinna.

Í dag langar mig að ræða um skimanir á krabbameini. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri hér á landi með því að skima fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu á liðnu vorþingi um að hefja skimanir á blöðruhálskrabbameini sem er algengasta krabbamein hjá körlum þannig að ég tel að við séum á réttri leið. En það er einnig mikilvægt að hefja skimun á ristil- og endaþarmskrabbameini sem fyrst. Sýnt hefur verið fram á að slík skimun lækki dánartíðni hjá körlum um 73% og hjá konum um 82%. Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið hjá Íslendingum og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameins. Þessi tíðni fer vaxandi og við vitum enn ekki hvers vegna.

Í mörg ár var deilt vel og lengi um réttmæti skimunar og markvissra forvarna gegn krabbameini í ristli og endaþarmi. Ítarlegar og vandaðar rannsóknir hafa nú verið gerðar og niðurstöður þeirra rannsókna benda eindregið til að með skipulegri skimun fyrir ristilkrabbameini megi fækka dauðsföllum vegna þessa sjúkdóms um 15–40%. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að leit í þessu krabbameini er hagkvæm forvarnaíhlutun. Þessum sömu aðferðum beita heilbrigðisyfirvöld víða í vaxandi mæli þegar teknar eru ákvarðanir um forgangsröðun í heilbrigðismálum.

Árlega kostar tæplega 1,5 milljarða að greina og meðhöndla þá rúmlega 130 einstaklinga sem greinast með ristilkrabbamein. Þá er ótalinn sá kostnaður sem fellur til vegna vinnutaps, minni þjóðfélagslegrar framleiðni og afleiðinga þess fyrir þjóðfélagið. Árlegur kostnaður við skimun (Forseti hringir.) hjá skilgreindum aldurshópum hér á landi hefur verið áætlaður um 100 millj. kr. þannig að þetta er mjög hagkvæm aðferð og ég vona að þetta sé partur af krabbameinsáætlun heilbrigðisráðherra sem við fáum að sjá á næstu missirum.