144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að koma inn á vegna þeirrar uppákomu sem varð hérna í gær út af tillögum meiri hluta atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Í fyrsta lagi snýst þetta mál ekki um það hvort nefndin veiti eina, tvær eða þrjár vikur í umsagnarfrest um það. Það er ekki í verkahring þingnefndar að fara með málið í þann farveg, svo það sé sagt hér. Verkefnisstjórn um rammaáætlun á að sjá um þá hluti.

Númer tvö, mig langar til að tala um tvær virkjanir af þeim virkjunarkostum sem lagt er til að fluttar verði í nýtingarflokk. Fyrst er Hagavatnsvirkjun sem prófessorar og sérfræðingar í jarðvegseyðingu hafa sagt að skorti að minnsta kosti sex eða sjö ólíkar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar sú virkjun hefði fyrir byggðirnar í uppsveitum Árnessýslu og í Bláskógabyggð. Hún gæti leitt gríðarlegt moldrok yfir þessar byggðir.

Í þriðja lagi yrði virkjunarkosturinn í Hólmsá við Atley, sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til að verði fluttur í nýtingarflokk, það mannvirki á Íslandi sem næst stæði Kötlu. Þá er ég ekki að tala um matvælaiðjuna heldur eldfjallið sem menn hafa beðið eftir í langan tíma. Menn geta dæmt um hversu skynsamlegt það yrði.

Þar fyrir utan er þarna um að ræða tvo virkjunarkosti, þetta er fjórði og síðasti punkturinn minn í þessum ræðustól, sem ekki hafa hlotið neina faglega umfjöllun í verkefnisstjórn. Atvinnuveganefnd tekur upp hjá sér upp á sitt einsdæmi að ætla að flytja hann í nýtingarflokk. Hér held ég að menn þurfi aðeins að staldra við. Sem betur fer varð maður var við það þegar leið á gærdaginn að þessar fyrirætlanir virtust koma að minnsta kosti flestum framsóknarmönnum í opna skjöldu og er það vel. Ég vona að þeir komist að réttri niðurstöðu í þessu máli þegar þeir (Forseti hringir.) funda um það síðar í dag.