störf þingsins.
Virðulegi forseti. Ég held að það sem gerðist hér í gær og það sem hv. þm. Jón Gunnarsson boðar nú í vinnubrögðum eigi að vera okkur öllum mjög mikið umhugsunarefni í því hvernig við nálgumst og förum með það verkefni sem okkur er falið á Alþingi. Það er ekki svona, það er ekki til fyrirmyndar hvernig þetta var gert og ég vona að eftir að þingflokkar beggja stjórnarflokka hafa fjallað um þetta verði gerðar breytingar á vinnulaginu og verkefnisstjórnin látin fara í gegnum málið eins og lög segja til um. Ef ekki þá erum við komin inn á algerlega nýjar brautir. Ég er hissa á Framsóknarflokknum ef hann ætlar að taka þátt í þessu vegna þess að hann á mjög mikið í því vinnulagi sem rammaáætlun byggir á. Það er einfaldlega þannig. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Framsóknarflokkurinn ætli að sitja hjá og leyfa hv. þm. Jóni Gunnarssyni með fulltingi ráðherranna sjálfstæðismegin að keyra yfir það vinnulag með þeim hætti að eftir standi sviðin jörð.
Annað verð ég líka að nefna, það er að hér hefur mikið verið rætt um að menn leiti fyrirmynda í því hvernig fyrrverandi ráðherra hafi gengið um rammaáætlun við frágang á henni áður en hún kom í þingið. Þá ætla ég að fá að draga fram nokkrar staðreyndir. Það var 12 vikna umsagnarferli eftir að verkefnisstjórnin hafði raðað í bið, vernd og nýtingu, opið. Þar komu fram 255 athugasemdir. Þessir ráðherrar hefðu getað tekið ákvörðun byggða á þessum athugasemdum um að skella virkjunarkostunum bara beint í verndarflokk ef þeir hefðu metið það þannig. Þeir gerðu það ekki heldur ákváðu að það væri ekki í þeirra valdi að taka ákvörðun um það, að meta umsagnirnar. Þess vegna voru kostirnir settir í biðflokk og verkefnisstjórnin beðin um að leggja mat á umsagnirnar þannig að matið yrði ekki pólitískt. Menn geta því ekki vísað í það vinnulag þegar þeir setja sínar (Forseti hringir.) pólitísku krumlur í þetta verkefni, eins og verið er að gera hér, og gera sjálfa sig að fagmönnum í málinu. (Forseti hringir.) Það er ekki það sem gert var á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)