144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru skrýtnir dagar á Alþingi. Maður veit eiginlega ekki hvernig verður hægt að byggja upp traust á milli stjórnarandstöðu- og stjórnarþingmanna ef það verður haldið áfram á þeirri vegferð sem hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, ákvað að fara af stað í. Það er alveg ljóst út frá þeirri orðræðu sem hér átti sér stað í gær að hv. þingmaður er ekki einn á þeirri vegferð heldur nýtur stuðnings margra úr sínum flokki, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra.

Mér finnst þetta undarleg vegferð, undarleg af því að allt Alþingi á síðasta kjörtímabili, þar á meðal hv. þm. Jón Gunnarsson, greiddi atkvæði með rammaáætlun. Það hefur ekkert breyst sem kallar á svona aðgerðir. Ef við ætlum að rjúfa friðinn, eins og var byrjað á gær, verður friðurinn rofinn. — Það er gríðarlega mikill hávaði í hliðarsal.

(Forseti (EKG): Forseti tekur eftir því líka og biður hv. þingmenn sem eru í hliðarsal að gefa hv. ræðumanni hljóð.)

Já, bara steinhalda kjafti. Mér finnst líka mjög mikilvægt að hafa í huga að þegar friðurinn er rofinn á svona tíma þegar virðulegur forseti hefur ákveðið að við eigum að fara í jólafrí 13. desember er alveg ljóst að sú áætlun þingsins mun ekki standast.

Síðan geri ég alvarlegar athugasemdir við það hvernig framganga meiri hlutans er varðandi fjárlögin, það hvað frumvarpið kemur seint. Það er bara ekki í lagi, forseti.